Skoðun

Mikilvægt persónukjör framundan

Áhugi á persónukjöri fer vaxandi, á því fyrirkomulagi að kjósendur geti valið einstaklinga en ekki aðeins flokkslista. Framundan er kosning til stjórnlagaþings sem verður í senn persónukjör og með landinu sem einu kjördæmi. Hvort tveggja er nýjung hjá okkur. Kjósendur fá að velja verðuga fulltrúa til að endurskoða stjórnarskrána. En um leið taka þeir þátt í mikilvægri tilraun með persónukjör sem gæti orðið vísir að því sem koma skal. Kjósendur velja ekki aðeins einn frambjóðanda með krossi heldur forgangsraða þeir allt að 25 frambjóðendum. Beitt verður þekktri talningaraðferð sem tryggir að vilji kjósenda er virtur til hins ítrasta. Það er afar mikilvægt að kjósendur taki þátt í kosningunum með öflugum hætti og nýti sér rétt sinn til röðunar til fulls. Þannig hafa þeir mest áhrif á niðurstöðuna.

Tilefni þessarar hvatningar er að Sverrir Jakobsson ritar pistil í Fréttablaðið 19. október s.l. um persónukjör. Í grein Sverris gætir nokkurs misskilnings varðandi aðferðina sem beitt verður. Það er ekki rétt hjá Sverri að röðun í fyrstu sætin og einkum það fyrsta sé það eina sem máli skiptir. Þverrt á móti. Það getur allt eins orðið síðasta val kjósandans sem kemur manni á þingið. Kjósandinn þarf heldur ekki að hika við að setja ofarlega einhvern sem ekki er í sviðsljósinu. Nái hann ekki kjöri er atkvæðinu engan veginn kastað á glæ heldur fer það næsta manns að ósk kjósandans.

Með öflugri þátttöku í persónukjörinu til stjórnlagaþings fær þjóðin mikið tækifæri. Nýtum það til fulls.

 




Skoðun

Skoðun

Hún

Hólmfríður Jennýjar Árnadóttir skrifar

Sjá meira


×