Lífið

Biggibix býður fólki í ferðalag

Birgir Örn Sigurjónsson, eða Biggibix, hefur gefið út sína fyrstu sólóplötu, Set Me On Fire.
Mynd/Baldur Pan
Birgir Örn Sigurjónsson, eða Biggibix, hefur gefið út sína fyrstu sólóplötu, Set Me On Fire. Mynd/Baldur Pan

Ísfirski tónlistarmaðurinn Biggibix hefur sent frá sér sína fyrstu sólóplötu sem nefnist Set Me On Fire.

Biggi var áður í hljómsveitinni BMX sem var nokkuð dugleg á ballmarkaðinum en eftir að hún lagði upp laupana ákvað hann að hefja sólóferil. Þar er hugljúft popp og rokk í fyrirrúmi.

„Ég hef alltaf verið rosalega sjálfstæður í tónlistarbransanum og átt erfitt með að vinna með öðrum tónlistarmönnum. Þannig að það lá svolítið fyrir að hefja sólóferil því það hefur alltaf staðið til að gefa út eigið efni,“ segir Biggi sem tekur þó fram að hann sé ekkert erfiður í samstarfi, heldur henti það honum einfaldlega betur að vera einn á báti.

Upptökur á plötunni hófust í byrjun síðasta árs en babb kom í bátinn þegar harði diskurinn í hljóðverinu hrundi rétt áður en átti að ganga frá plötunni. „Við tókum plötuna upp aftur, bættum við lagi og löguðum það sem þurfti að laga. Þetta var bara lán í óláni,“ segir Biggi.

Set Me On Fire er persónuleg plata sem fjallar að miklu leyti um samskipti kynjanna. „Ég er ekkert að setja mig í einhverjar draumkenndar aðstæður og syngja um eldgos og álfa. Ég ákvað frá byrjun að platan skyldi vera ferðalag sem þú hlustar á frá byrjun til enda. Mér finnst skemmtilegra að gera þannig plötu,“ segir Biggi, sem starfar sem grafískur hönnuður á Ísafirði og er í slökkviliði bæjarins. Heimasíða Bigga er Biggibix.com. - fb






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.