Viðskipti innlent

Fasteignamat lækkar um 8,6%

Mynd/Vilhelm Gunnarsson

Heildarmat fasteigna á landinu lækkar um 8,6%. Fasteignaeigendur um allt land fá í dag og á morgun tilkynningar um niðurstöður fasteignamats fyrir árið 2011. Mat á 94% íbúðareigna landsmanna lækkar.

Í lögum, sem tóku gildi í byrjun árs 2009, er kveðið á um að hver einasta fasteign skuli metin árlega í ljósi kaupsamninga um sambærilegar eignir og eigendum tilkynnt niðurstaðan í júnímánuði, að fram kemur í tilkynningu frá Fasteignaskrá Íslands. Þar segir ennfremur að fasteignamat á hverjum tíma skuli endurspegla markaðsverðmæti, staðgreiðsluverð, fasteignar í febrúar. Fasteignamat íbúðarhúsnæðis fyrir árið 2010 var unnið á síðasta ári í samræmi við nýju lögin. Fasteignamat íbúðarhúsnæðis, sem nú er kynnt vegna ársins 2011, er því gert í annað sinn miðað við breyttar forsendur.



Staðbundnar breytingar


Mat á innan við 1% eigna á höfuðborgarsvæðinu hækkar. Lækkanir geta verið þar mismiklar, sem skýrist annars vegar af mismunandi verðþróun eftir hverfum og hins vegar af endurbættum matsaðferðum. Áhrif staðsetningar og annarra eiginleika á verðmat eigna voru endurskoðuð eftir því sem ástæða þótti til. Þannig á fasteignamat að endurspegla markaðsverð eins vel og unnt er við hvert endurmat.

Hægt er að skoða töfluna í stærri upplausn með því að smella á myndina. Heildarfasteignamat á höfuðborgarsvæðinu lækkar um 10,4%, á Suðurnesjum um 7,4%, á Vesturlandi um 6,4%, á Vestfjörðum um 1,2%, á Norðurlandi vestra um 0,7%, á Norðurlandi eystra um 4,4%, á Austurlandi um 0,8% og á Suðurlandi um 3,4%.
Nefna má Kórahverfi í Kópavogi og Úlfarsárdal í Reykjavík sem dæmi þar sem mat á íbúðareignum lækkar umfram meðaltal höfuðborgarsvæðisins en á hinn bóginn hækkar mat á flestum eignum neðst í Fossvogi og á sjávarlóðum á Arnarnesi.

Vestmannaeyjar skera sig úr á lista yfir heildarmat fasteigna á landinu öllu. Þar hækkar matið um 10,4%. Sömuleiðis hækkar heildarmatið í Skútustaðahreppi um 7,7%, í Grýtubakkahreppi um 6,5%, á Höfn í Hornafirði um 5,5% og í Akrahreppi, Fljótsdalshreppi og Ásahreppi um 3,2-3,6% .

Enn má nefna að mat á fasteignum tengdum virkjunum og stóriðju hækkar um tæplega 3%.

Mat á 94% íbúðareigna landsmanna lækkar

Alls eru skráðar um 124.000 íbúðareignir á Íslandi. Samanlagt fasteignamat þeirra er nú um 2.880 milljarðar króna en verður 2.590 milljarðar króna samkvæmt mati ársins 2011; lækkar með öðrum orðum um 10%.

Fasteignamat á rúmlega 117.000 íbúðum lækkar (94% íbúðarhúsnæðis í landinu), mat á tæplega 7.000 íbúðum hækkar en mat á um 800 íbúðum er óbreytt.

Verðmæti um helmings fullbúinna íbúða á landinu er metið á bilinu 13,5-25 milljónir króna og fasteignamat þeirra lækkar að jafnaði um 9,5%.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×