Innlent

„Við verðum að mennta okkur út úr kreppunni“

Boði Logason skrifar
Kristín Ingólfsdóttir við brautskráninguna í dag
Kristín Ingólfsdóttir við brautskráninguna í dag
„Við verðum að mennta okkur út úr kreppunni," sagði Kristín Ingólfsdóttir, rektor Háskóla Íslands, við útskrift tæplega 1800 kandídata í dag. Þetta er mesti fjöldi sem hefur verið brautskráður frá skólanum. Kristín benti á stefnumörkun annarra þjóða sem líta á háskólamenntun sem hluta af langtímalausn efnahagsvanda.

„Við verðum að byggja upp fyrir framtíðina. Við verðum með sama hætti og aðrar þjóðir að forgangsraða og setja menntun, vísindi og nýsköpun í algeran forgang," sagði Kristín og greindi jafnframt frá stofnun Mannerfðafræðistofnunar Íslands, sem Háskóli Íslands setti á laggirnar í gær í samstarfi við Íslenska erfðagreiningu og Landspítalann háskólasjúkrahús. Stofnunin stefnir að því að verða leiðandi á heimsvísu á sviði mannerfðafræði.

Kristín fjallaði einnig í ræðu sinni um aukið samstarf við alþjóðlegar vísindastofnanir og háskóla nú síðast NASA og Stanford háskóla. Hún sagði Háskóla Íslands njóta mikillar velvildar á alþjóðavettvangi sem byggði á þeim árangri sem starfsfólk skólans hefur náð í vísindum og á því að nemendur sem útskrifast frá Háskóla Íslands hafa náð mjög góðum árangri í framhaldsnámi við þessa skóla.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×