Viðskipti innlent

Góður hagnaður af rekstri Orkubús Vestfjarða í fyrra

Árið 2009 var hagstætt fyrir rekstur Orkubús Vestfjarða og varð hagnaður af venjubundnum rekstri fimmta árið í röð. Hagnaður ársins nam 234 milljónir kr. eftir skatta. Framleiðsla vatnsaflsvirkjana Orkubúsins var í meðallagi og ekki urðu nein stærri rekstraráföll í flutningskerfum Orkubúsins.

Fjallað er um málið á vefsíðu Orkubúsins. Þar segir að á árinu 2009 varð afkoma Orkubús Vestfjarða mun betri en áætlanir gerðu ráð fyrir. Rekstraráætlun ársins gerði ráð fyrir rekstrarhagnaði að upphæð 66,3 milljónir kr. en samkvæmt rekstrarreikningi varð hagnaður af venjubundnum rekstri fyrir skatta, sem nam um 247,5 milljónir kr., en þegar tekið er tillit til breytinga á tekjuskattsprósentu og bókfærðs tekjuskatts 2009 er hagnaður ársins um 234,4 milljónir kr..

Afskriftir námu alls 210,5 milljónum kr.. Eignir Orkubús Vestfjarða ohf. í árslok 2009 voru alls 5,3 milljarðar kr. og heildarskuldir alls 656 milljónir kr. Eigið fé nam því alls 4.7 milljörðum kr. sem er um 87,7 % af heildarfjármagni. Eignir Orkubús Vestfjarða ohf. hafa ekki verið endurmetnar.

Á árinu 2009 var 350,5 milljónum kr. varið til fjárfestinga. Orkubú Vestfjarða hefur um langt skeið fjármagnað allar framkvæmdir sínar með fé frá rekstri og er fyrirtækið því skuldlaust ef frá eru taldar eldri lífeyrisskuldbindingar. Þessi stefna hefur leitt til þess að fjármagnskostnaður, sem nú er að sliga flest orkufyrirtæki landsins, er lítill sem enginn og unnt hefur verið að reka fyrirtækið með hagnaði á undanförnum árum.

Á árinu 2009 voru teknar ákvarðanir um virkjunarframkvæmdir og endurnýjun í Mjólkárvirkjun á árunum 2010 og 2011. Gert er ráð fyrir að kostnaður verði um einn milljarður kr. og stefnir Orkubúið að því að fjármagna þær með fé frá rekstri, á næstu þremur árum, þannig að ekki þurfi að taka langtímalán þeirra vegna.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×