Viðskipti innlent

Líka reynt að hækka gengið í Glitni og Landsbankanum

Sigurjón Þ. Árnason fyrrverandi bankastjóri Landsbankans.
Sigurjón Þ. Árnason fyrrverandi bankastjóri Landsbankans.
Sérstakur saksóknari hefur til meðferðar mál er varða markaðsmisnotkun Glitnis og Landsbankans. Viðskipti banka sem hafa þann eina tilgang að ýta undir gengi hlutabréfa bankans nefnast markaðsmisnotkun.

Rannsókn sérstaks saksóknara, sem leiddi til gæsluvarðhaldsúrskurða yfir Hreiðari Má Sigurðssyni og Magnúsi Guðmundssyni, snýst um slíka markaðsmisnotkun. Eru þeir grunaðir um að standa að baki viðskiptum í þeim tilgangi fyrir hátt í hundrað milljarða króna.

Rannsóknarnefnd Alþingis tilkynnti saksóknara um nokkur mál er varða markaðsmisnotkun. Snúa þau að lánveitingum bankanna til slíkra viðskipta, svokölluðum eigin viðskiptum bankanna og persónulegum hag starfsmanna bankanna af markaðsmisnotkun.

Rannsóknarnefndin telur yfirgnæfandi líkur á að þau viðskipti bankanna með eigin hlutabréf sem greining nefndarinnar náði til hafi verið framkvæmd í þeim tilgangi að gefa misvísandi upplýsingar um eftirspurn eftir hlutabréfum og hafa þannig áhrif á verð þeirra. Í mörgum tilvikum hafi bankarnir veitt völdum viðskiptavinum lán á hagstæðum kjörum og jafnvel án trygginga til að liðka fyrir slíkum viðskiptum.

Þó Kaupþing hafi verið umsvifamest í markaðsmisnotkun beittu Glitnir og Landsbankinn sömu brögðum. Um þá banka segir í skýrslunni að inngrip þeirra í viðskipti með hlutabréf í þeim hafi orðið til þess að skekkja þá mynd sem hluthafar höfðu um verðmæti bréfa sinna. Hlutirnir voru þannig taldir verðmeiri en þeir voru í raun og nýir hluthafar á þeim tíma keyptu hluti á of háu verði. Að auki kunna aðrir viðskiptamenn að hafa orðið fyrir skaða þar eð þeir töldu verðþróunina vera til marks um að staða bankans væri betri en síðar kom á daginn.

Árið 2008 vísaði Kauphöllin ellefu málum þar sem grunur lék á markaðsmisnotkun til Fjármálaeftirlitsins.

bjorn@frettabladid.is





Fleiri fréttir

Sjá meira


×