Viðskipti innlent

Allt hlutafé Bílaleigu Flugleiða er til sölu

Fyrirtækjaráðgjöf Landsbankans hefur verið falið að annast sölu á öllu hlutafé í Bílaleigu Flugleiða ehf. Bílaleiga Flugleiða er eina félagið á Íslandi sem hefur einkarétt á að nota og markaðssetja vörumerkið Hertz samkvæmt samningi við Hertz International.

Í tilkynningu segir að rekstur bílaleigu er mjög árstíðabundinn þar sem hann er nátengdur ferðamannaiðnaðinum. Félagið rekur 9 þjónustustöðvar um land allt og hjá því starfa í dag 45 starfsmenn en yfir sumartímann nær starfsmannafjöldinn um 70.

Áætlað er að Bílaleiga Flugleiða sé þriðja stærsta bílaleigan á íslenska markaðinum miðað við bílaflota, en síðasta sumar var hann um 1.000 bílar.

Söluferli bílaleigunnar hófst formlega með birtingu auglýsingar í fjölmiðlum í dag og er opið öllum fjárfestum sem sýnt geta fram á eiginfjárstöðu umfram 500 milljónir króna og hljóta samþykki Hertz International.

Fyrirtækjaráðgjöf Landsbankans stefnir að því að ljúka sölunni um miðjan febrúar.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×