Viðskipti innlent

Jóhanna áætlar að tafir á Icesave hafi kostað 30 milljarða

Í svari sínu vísaði ráðherra í spár Seðlabanka Íslands og ASÍ og til skýrslu matsfyrirtækisins Moodys.
Í svari sínu vísaði ráðherra í spár Seðlabanka Íslands og ASÍ og til skýrslu matsfyrirtækisins Moodys.
Ætla má að tafir á Icesave-viðræðum og framgangi efnhagsáætlunar íslenskra stjórnvalda hafi leitt til þess að samdráttur ársins 2010 verði nærri 2% meiri en áður var spáð. Það svarar til 30 milljarða króna og 1-2% meira atvinnuleysi en annars hefði verið.

Þetta kom fram í munnlegu svari Jóhönnu Sigurðardóttur forsætisráðherra við fyrirspurn Unnar Brár Konráðsdóttur þingmanns Sjálfstæðisflokksins á Alþingi fyrir helgina, um kostnað vegna tafa á lausn Icesave-málsins. Fjallað er um málið á vefsíðu forsætisráðuneytisins.

Á vefsíðunni segir að kostnaður vegna tafa á lausn Icesave-deilunnar er í megindráttum þríþættur:

Í fyrsta lagi hamlar hann framgangi efnahagsáætlunarinnar í samstarfi við Alþjóða gjaldeyrissjóðinn. Þrátt fyrir að önnur endurskoðun efnahagsáætlunarinnar hafi nú verði samþykkt í stjórn AGS er hætta á frekari töfum ef lausn fæst ekki í Icesave-deilunni á næstu vikum eða mánuðum. Þar af leiðandi getur orðið töf á að gjaldeyrishöftum verði létt, sem dregur verulega úr skilvirkni hagkerfisins og þar með hagvexti.

Í öðru lagi hamlar óleyst Icesave-deila fjárfestingum vegna þeirra óvissu sem hún skapar í efnahagslífinu.

Í þriðja lagi hefur Icesave-deilan leitt til hærri fjármögnunarkostnaðar ríkisins og annarra aðila í hagkerfinu, sbr. hærra skuldatryggingaálag, þ.m.t. sveitarfélaga og orkufyrirtækja sem hafa haft aðgang að erlendri fjármögnun.

Í svari sínu vísaði ráðherra í spár Seðlabanka Íslands og ASÍ og til skýrslu matsfyrirtækisins Moodys.

Kostnaður vegna tafa á lausn Icesave-málsins er verulegur fyrir samfélagið, þótt tekist hafi að draga talsvert úr skaðlegum áhrifum þess með 2. endurskoðun efnahagsáætlunarinnar hjá AGS.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×