Viðskipti innlent

Landsbankinn tapaði 6,9 milljörðum

Landsbankinn tapaði 6,9 milljörðum

Afkoma Landsbankans eftir skatta var neikvæð um 6,9 milljarða króna frá því bankinn var tekinn yfir af ríkinu eftir hrun haustið 2008 til áramóta sama ár. Þetta skýrist fyrst og fremst af tapi af markaðsskuldabréfum sem bankinn keypti af peningamarkaðssjóðum Landsvaka í október 2008 en það nam 38,2 milljörðum króna, að fram kemur í tilkynningu frá bankanum.

Fréttastofa Stöðvar 2 og Vísis fjallaði um afkomu nýju bankanna í þess að lögð var fram skýrsla starfshóps Alþjóðagjaldeyrissjóðsins um stöðu efnahagsmála á Íslandi. Upplýsingar sem þar er að finna stangast á við tilkynningu bankans í dag því í skýrslunni kom fram að Landsbankinn tapaði 19 milljörðum króna á tímabilinu 7. október til 31. desember 2008.

Í tilkynningu Landsbankans segir að hreinn gengishagnaður af gjaldeyrisjöfnuði að teknu tilliti til virðisrýrnunar, hafi verið 32,6 milljarðar króna á tímabilinu og skýrist annars vegar af gengisþróun krónunnar og hinsvegar af þróun gengis erlendra gjaldmiðla. Einnig kemur fram að rekstrarkostnaður af reglulegri starfsemi bankans var 4,1 milljarður króna og að  hreinar þóknunartekjur námu 1,0 milljarði króna.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×