Erlent

Þúsundir Rússa á flótta undan skógaeldum

Þúsundir Rússa eru nú á flótta undan miklum skógareldum sem geysa skammt austan við Moskvu. Þrjú þorp eru brunnin til grunna en slökkviliðið ræður ekkert við eldanna og raunar eru fregnir um að alltof fáir slökkviliðsmenn séu að reyna að ná tökum á eldunum.

Opinberar upplýsingar segja að fimm manns hafi farist í eldunum hingað til en Ekstra Bladet segir að margir bloggarar í grennd við skógareldanna telji það alltof lágan fjölda og að látnum eigi eftir að fjölga töluvert. Þá eru fregnir um að þrír slökkviliðsmenn séu illa slasaðir.

Yfir 2.000 manns eru á flótta eftir að þrjú þorp brunnu til grunna í nótt og þar með yfir 1.000 hús en þorpin lágu á milli Volgu og Don fljótanna.

Opinberar upplýsingar um umfang skógareldanna og skaðann af þeim eru rýrar. Rússnesku blaði barst smáskeyti í gærkvöldi frá íbúa í einu af þorpunum þar sem sagði að öll 600 húsin í því hafi brunnið og fleiri manns hafi látist. Í skeytinu er spurt hvar slökkviliðið sé og hvar eigum við að sofa í nótt.

Snemma í morgun staðfesti talsmaður stjórnvalda að þrjú þorp séu brunnin og að eldurinn sé að færast nær Moskvu þar sem fjórða þorpið er tekið að brenna. Talsmaðurinn viðurkenndi að hundruðir manna hefðu ekki lengur þak yfir höfuðið.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×