Viðskipti innlent

Óttast ekki að Sjóvá fari í þrot

Fall Aska Capital mun ekki hafa nein áhrif á tryggingafélagið Sjóvá, en félagið sér fram á tap vegna falls Avant, dótturfélags Aska. Óvíst er hversu mikið tapið verður.

Ólafur Njáll Sigurðsson, framkvæmdastjóri fjármálasviðs Sjóvár, segir félagið þola það áfall, og viðskiptavinir þurfi ekki að óttast að félagið sé að fara í þrot, og málið muni engin áhrif hafa á þá.

Eins og Fréttablaðið greindi frá á miðvikudag bjargaði ríkissjóður Sjóvá frá falli í fyrra með kaupum Seðlabankans á 73 prósenta hlut í félaginu. Kaupverðið var 11,6 milljarðar, 6,2 milljarðar í formi bréfa í Öskum Capital og 2,9 milljarðar í formi bréfa í Avant. Bæði félögin eru nú komin í þrot.

Skuldabréf Aska eru tryggð með bréfum sem eru með ábyrgð ríkissjóðs, og mun fall Aska ekki hafa nein áhrif á Sjóvá, segir Ólafur. Félagið muni ekki fara undir lágmörk Fjármálaeftirlitsins þrátt fyrir að Askar hafi farið í þrot.

Skuldabréf Avant eru tryggð með öðrum hætti, og verður gengið í að innheimta þær tryggingar, segir Ólafur. Hann segir óvíst hversu mikið tap félagsins vegna þessa geti orðið, en stærstu eigendur Sjóvár ábyrgist að félagið muni standast skilyrði Fjármálaeftirlitsins um eigið fé og gjaldþol með því að leggja Sjóvá til aukið fé ef þörf krefji.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×