Viðskipti innlent

Líklegt að S&P setji Ísland í ruslflokk fyrir mánaðarmót

Greining Íslandsbanka telur líklegt að matsfyrirtækið Standard & Poors (S&P) muni setja lánshæfiseinkunn Íslands í ruslflokk fyrir lok janúar. Þetta kemur fram í Morgunkorni greiningarinnar.

Í kjölfar synjunar forsetans á undirskrift Icesave-laganna setti S&P Ísland á athugunarlista með neikvæðum horfum vegna hættu á töfum og endurskoðun efnahagsáætlunar AGS og stjórnvalda. Hyggst matsfyrirtækið kveða úr um hvort lánshæfiseinkunn íslenska ríkisins lækkar um eitt til tvö þrep fyrir janúarlok.

Í Morgunkorninu segir að af þeirri tilkyningu og viðtalinu á Bloomberg má ráða að ef ekki verður kominn skriður á efnahagsáætlunina og línur orðnar skírar varðandi fjármögnun hennar eftir hálfan mánuð muni Ísland líklega falla niður úr fjárfestingarflokki í bókum S&P.

„Einkunnir S&P hafa að okkar mati töluvert meiri áhrif en einkunnir matsfyrirtækisins Fitch, sem lækkaði einkunn ríkissjóðs niður fyrir fjárfestingaflokk fyrir hálfum mánuði síðan. Fyrrnefnda fyrirtækið gefur ekki aðeins ríkissjóði lánshæfiseinkunn, öfugt við Fitch , heldur einnig Landsvirkjun og Íbúðalánasjóði," segir í Morgunkorninu.

Í daglegu fréttabréfi bendir þýski bankinn Commerzbank á að þótt líklega sé búið að verðleggja neikvæðar horfur lánsmatsfyrirtækjanna inn í skuldatryggingar og erlend skuldabréf ríkissjóðs geti lækkun lánshæfiseinkunarinnar orðið til þess að takmarka fjárfestingarákvarðanir erlendra fjárfesta. Margir þeirra mega ekki fjárfesta í fjáreignum sem ekki njóta lánshæfiseinkunnar í fjárfestingarflokki, og það hafi því frekari neikvæð áhrif.

Ávöxtunarkrafa evrubréfa ríkissjóðs með gjalddaga í lok ársins 2011 hefur hækkað úr 8,7% í 11,1% frá áramótum á erlendum eftirmarkaði, en hafa ber í huga að markaður með þessi bréf er mjög grunnur og viðskipti strjál.

Þá hækkaði skuldatryggingaálag ríkissjóðs talsvert í síðustu viku, en hefur hins vegar lækkað nokkuð í dag. Samkvæmt gagnveitunni CMA er álagið til 5 ára þannig 524 punktar þegar þetta er ritað, en það fór hæst í 545 punkta síðastliðinn föstudag, að því er segir í Morgunkorninu.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×