Lífið

Garðbæingar bjóða til djassveislu

Sigurður Flosason er listrænn stjórnandi Jazzhátíðar Garðabæjar sem hefst í kvöld.
Sigurður Flosason er listrænn stjórnandi Jazzhátíðar Garðabæjar sem hefst í kvöld.
Jazzhátíð Garðabæjar hefst í kvöld og stendur fram á sunnudag. Hún er haldin í fimmta sinn en listrænn stjórnandi hátíðarinnar er Sigurður Flosason tónlistarmaður og Garðbæingur. Aðgangur er ókeypis á alla tónleika en hátíðin er haldin á vegum menningar- og safnanefndar Garðabæjar og aðalstyrktaraðili hennar er Íslandsbanki í Garðabæ.

Dagskráin hefst í kvöld í Hátíðarsal Fjölbrautaskólans í Garðabæ kl. 20.30 með stórtónleikum Óskars Guðjónssonar, Mezzoforte og vandamanna. Óskar kemur fram með hljómsveit sinni og bróður síns Ómars Guðjónssonar og flytur ólíka tónlist frá ferli sínum, meðal annars eftir Jón Múla Árnason. Eftir hlé leikur Óskar með fyrstu útrásarvíkingum íslensks tónlistarlífs, súpergrúppunni Mezzoforte. Systir þeirra Óskars og Ómars, óperusöngkonan og kórstjórinn Ingibjörg Guðjónsdóttir kemur fram sem gestur á tónleikunum. Er langt síðan Mezzo kom saman og líklegt að hinn tryggi aðdáendahópur hennar flykkist á tónleikana. Stórsveit Tónlistarskóla Garðabæjar opnar tónleikana undir stjórn Braga Vilhjálmssonar.

Á föstudag kl. 14 heimsækir danska djasssöngkonan Cathrine Legardh Jónshús, félags- og þjónustumiðstöð við Strikið 6 og flytur vinsæla djassstandarda ásamt traustum íslenskum meðleikurum. Um kvöldið eru einleikstónleikar Agnars Más Magnússonar í Kirkjuhvoli þar sem hann blandar saman djassstandörd­um og eigin verkum á lifandi og fjölbreytilegan máta.

Á laugardag verða kvöldtónleikar í Kirkjuhvoli þar sem Cathrine Legardh, ein af vinsælustu djasssöngkonum Dana kemur fram og leikur með nokkrum af okkar fremstu mönnum. Cathrine Legardh flytur þekkta djassstandarda, norræn lög og eigin verk.

Lokatónleikar verða í Vídalínskirkja á sunnudagskvöld kl. 20.30 þar sem kór Vídalínskirkju og Gospelkór Jóns Vídalín ásamt saxófónleikaranum Sigurði Flosasyni flytja djassspunna sálma.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.