Viðskipti innlent

Telur að botninn sé í sjónmáli á íbúðamarkaðinum

Líklegt er nú að hægfara viðsnúningur sé framundan á íbúðamarkaði og botninn í sjónmáli. Það sem styður þá þróun er meðal annars viðsnúningur í kaupmætti, hjöðnun verðbólgu, styrking á gengi krónunnar, lægri vextir og hin almenni viðsnúningur í hagkerfinu sem framundan er.

Þetta kemur fram í Morgunkorni greiningar Íslandsbanka. Þar segir að taki hagkerfið við sér á næsta ári eins og spár gera ráð fyrir mun íbúðamarkaðurinn fylgja með.

„Það sem hinsvegar helst gæti staðið í vegi fyrir áframhaldandi viðsnúningi á íbúðamarkaði er bakslag í efnahagsbatanum, viðvarandi óvissa varðandi skuldastöðu heimilanna, óhagstæð þróun á vinnumarkaði og viðvarandi fólksfækkun," segir í Morgunkorninu.

Íbúðaverð á höfuðborgarsvæðinu hækkaði í októbermánuði um 0,9% samkvæmt mælingum Þjóðskrár Íslands. Íbúðir í sérbýli hækkuðu um 2,2% í verði í október frá fyrri mánuði. Íbúðir í fjölbýli hækkuðu heldur minna eða um 0,5%.

Þetta er þriðji mánuðurinn í röð sem íbúðaverð á höfuðborgarsvæðinu hefur hækkað eða haldist óbreytt frá fyrri mánuði, en undanfarna 3 mánuði hefur íbúðaverð á höfuðborgarsvæðinu hækkað um 1,2%. Undanfarna 12 mánuði hefur íbúðaverð lækkað um 2,3% að nafnverði og um 6,6% að raunvirði. Á sama tíma fyrir ári síðan nam lækkunin hins vegar 10% að nafnverði og 20% að raunverði.

Af þessari þróun má sjá að verulega er nú að hægja á verðlækkunum á íbúðamarkaði þó enn sé of snemmt að útiloka að til frekari lækkunar komi. Miklar sveiflur hafa einkennt mælingar á íbúðaverði frá hruni enda er velta á markaði aðeins brot að því sem áður var og fæð samninga eykur hættuna á skekkju í mælingum.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×