Viðskipti innlent

Fréttaskýring: Tugmilljarða gengishagnaður SÍ

Friðrik Indriðason skrifar
Það kemur því ekki á óvart að Már Guðmundsson seðlabankastjóri þakkar Yves Mersch seðlabankastjóra BCL og starfsmönnum hans sérstaklega fyrir augljósan velvilja þeirra í garð Íslendinga. Hér eru þeir saman að undirrita samninginn.
Það kemur því ekki á óvart að Már Guðmundsson seðlabankastjóri þakkar Yves Mersch seðlabankastjóra BCL og starfsmönnum hans sérstaklega fyrir augljósan velvilja þeirra í garð Íslendinga. Hér eru þeir saman að undirrita samninginn.

Áætla má að gengishagnaður Seðlabanka Íslands (SÍ) og ríkissjóðs nemi rúmum 40 milljörðum kr. vegna samnings þess sem gerður var við Seðlabanka Lúxemborgar (BCL) og kynntur var í morgun. Krónueignin var keypt á aflandsgengi og í útreikningum hér er miðað við gengið 250 kr. fyrir evruna.

Eins og kunnugt er keypti SÍ krónueignir upp á 120 milljarða kr. af BCL sem áður voru í eigu hollenska fjármálafyrirtækisins Avens sem svo aftur var í eigu Landsbankans. Fyrir þetta borgaði SÍ 402 milljónir evra með skuldabréfi til 15 ára en einnig með evrum (35 milljónir) og krónum (6 milljarðar) í reiðufé. Samtals nemur kaupverðið því um 76 milljörðum kr. miðað við opinbert gengi evrunnar í dag.

SÍ hefur ekki viljað upplýsa hvaða gengi lá til grundvallar fyrrgreindum samningi. Hér er miðað við 250 kr. fyrir evruna sem er nokkuð undir skráðu aflandsgengi krónunnar. Vefsíðan Keldan skráir nú kaupgengi evrunnar á 265 kr. og sölugengið á 285 kr. á aflandsmarkaðinum.

Aðrir kostir þessa samnings eru augljósir. Sjálfur nefnir SÍ að með samningnum lækkar erlend skuldastaða þjóðarbúsins um 3,5% af landsframleiðslu á einu bretti. Ekki síður mikilvægt er að með samningnum lækka erlendar eignir í krónum talið um fjórðung. Sú staðreynd mun létta mjög undir með afnámi gjaldeyrishaftanna í náinni framtíð.

Þá er ótalið að vextirnir á fyrrgreindu 15 ára skuldabréfi eru þeir sömu og Íslendingum bjóðast á lánunum frá hinum Norðurlöndunum í tengslum við áætlun Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Þeir vextir eru langt undir þeim vöxtum sem Íslandi gæti hugsanlega staðið til boða erlendis í dag.

Það kemur því ekki á óvart að Már Guðmundsson seðlabankastjóri þakkar Yves Mersch seðlabankastjóra BCL og starfsmönnum hans sérstaklega fyrir augljósan velvilja þeirra í garð Íslendinga.

„Hið vinsamlega og uppbyggilega viðmót sem Mersch seðlabankastjóri hefur sýnt í þessu ferli kemur að góðu haldi við að leysa sum þeirra vandamála sem skapast hafa vegna falls banka á Íslandi í fjármálakreppunni og leggur traustan grunn að áframhaldandi góðu samstarfi á milli Seðlabanka Lúxemborgar og Seðlabanka Íslands," segir Már í tilkynningunni í morgun um samninginn. Ástæða er til að taka undir þessi orð.

Fyrir utan hinn augljósa fjárhagslega hagnað með samningnum er ekki síður mikilvægt að líta til hins óbeina hagnaðar sem Íslendingar munu njóta af honum. Samningurinn er augljóslega spor í rétta átt til að endurvekja traust alþjóðlegs fjármálamarkaðar á Íslandi. Traust sem hvarf í hruninu 2008 og hefur ekki sést síðan.

Sjálfur segir Már Guðmundsson að hann telji að samningurinn muni gera það að verkum að næsta endurskoðun á áætlun Alþjóðagjaldeyrissjóðsins í sumar muni ekki tefjast eins og hinar fyrri. Gott ef það gengur líka eftir.
































Fleiri fréttir

Sjá meira


×