Viðskipti innlent

Miklu minna lánað til íbúðakaupa

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Minna er lánað til íbúðakaupa nú í ár en áður. Mynd/ Stefán.
Minna er lánað til íbúðakaupa nú í ár en áður. Mynd/ Stefán.
Almenn útlán Íbúðalánasjóðs til íbúðakaupa námu 1,6 milljörðum króna sem er um 16% minna en í sama mánuði fyrir ári síðan. Engu að síður er fjárhæðin nú í júní hærri en í síðasta mánuðinn þegar sjóðurinn lánaði 1,3 milljarða króna til íbúðakaupa og jafnframt hærri en sjóðurinn hefur lánað að meðaltali síðasta árið, eftir því sem kemur fram í Morgunkorni Íslandsbanka.

Meðalútlán sjóðsins til íbúðarkaupa síðasta árið nemur rétt rúmlega 1,4 milljörðum króna á mánuði. Til viðbótar við almenn útlán veitti sjóðurinn önnur útlán upp á 300 milljónir króna. Námu heildarútlán sjóðsins því rétt rúmlega 1,9 milljörðum króna í júní sem er 27% minna en á sama tíma í fyrra.

Á fyrstu 6 mánuðum ársins námu heildarútlán sjóðsins tæplega 11,9 milljörðum króna sem er 32% minna en hann lánaði á sama tímabili í fyrra samkvæmt tölum úr mánaðaskýrslu Íbúðalánasjóðs. Þar af námu almenn útlán sjóðsins 7,6 milljörðum króna sem er rúmlega 36% samdráttur frá sama tímabili í fyrra. Greining Íslandsbanka segir þessa þróun vera augljóslega til marks um þá ládeyðu sem ríki á innlendum fasteignamarkaði um þessa mundir.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×