Fótbolti

Torres: Þurfum sex sigra til að ná 4. sæti

Hjalti Þór Hreinsson skrifar
Torres skorar seinna mark sitt í gær af mikilli kænsku.
Torres skorar seinna mark sitt í gær af mikilli kænsku. Nordicphotos/Getty Images
Sex leikir eftir af deildinni og við þurfum að vinna þá alla. Þetta segir spænski markvarðarhrellirinn Fernando Torres hjá Liverpool. Markmið félagsins í dag er að ná fjórða sæti ensku úrvalsdeildarinnar, sem væri í raun merkilega góður árangur miðað við arfaslakt tímabil.

Torres skoraði eitt af mörkum tímabilsins í 3-0 sigrinum á Sunderland í gær í besta leik Liverpool á tímabilinu. Eina gagnrýnin á liðið var líklega að liðið skoraði ekki meira.

Liverpool er nú í fimmta sæti deildarnnar, fjórum stigum á eftir Tottenham sem auk þess á leik til góða. Manchester City getur hirt fimmta sætið aftur með sigri á Wigan í kvöld.

„Við vitum að við þurfum að vinna alla leikina okkar og við getum það alveg," sagði Torres. „Ef við spilum svona getum við unnið öll lið. Við eigum sex leiki eftir, við erum að spila vel og við verðum að halda svona áfram."

„Það verður ekki auðvelt og við leikum í Evrópudeildinni líka. Það væri gaman að vinna titil þar," sagði Torres en Liverpool mætir Benfica í átta liða úrslitum keppninnar á fimmtudag.

Sjá einnig:

Eitt af mörkum ársins hjá Torres - myndband

Rafa Benítez: Bæði mörkin frá Torres voru góð








Fleiri fréttir

Sjá meira


×