Viðskipti innlent

Iceland Express flýgur til Orlandó á næsta ári

Iceland Express hyggst fljúga til Orlandó í Flórída í mars og apríl á næsta ári. Orlandó er fjórði áfangastaður félagsins í Bandaríkjunum, en þegar er flogið til New York, og Boston og Chicagó bætast við í sumar.

Matthías Imsland forstjóri félagsins segir í tilkynningu um málið, að mikill áhugi sé á að fjölga áætlunarferðum vestur um haf og Orlandó-flugið sé liður í því. Hann segir, að félagið hafi flogið nokkrum sinnum til Orlandó í október í haust og það hafi gengið mjög vel. Verði viðtökurnar nú svipaðar eða betri, komi vel til greina að framhald verði á fluginu til Orlandó.

Orlandó er fimmta stærsta borgin í Flórída, en í borginni sjálfri búa um 250 þúsund manns. Orlandó og nágrenni laðar að fjölda ferðamanna á ári hverju, enda margt að skoða. Þar má nefna Universal Orlando Resort, þar sem gestum gefst kostur á að skoða kvikmyndaverin, Sea World Orlando og Lake Buena Vista, sem er skammt frá miðborginni og hýsir Walt Disney World.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×