Viðskipti innlent

AGS: Dómurinn tefur fyrir afnámi gjaldeyrishafta

Franek Rozwadowski og Mark Flanagan.
Franek Rozwadowski og Mark Flanagan. Mynd/Friðrik Þór Halldórsson
Nýlegur dómur Hæstaréttar um gengistryggð lán tefur fyrir afnámi gjaldeyrishafta. Þetta kom fram á kynningarfundi sendinefndar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins í dag. Fulltrúar sjóðsins ætla að taka sér tíma til að meta önnur hugsanleg áhrif dómsins.

Fulltrúarnir AGS hafa verið hér á landi í hálfan mánuð og átt í viðræðum við íslensk stjórnvöld um ýmis atriði er varða efnahagsáætlun Íslands. Á kynningarfundinum fóru þeir Mark Flanagan, yfirmaður sendinefndarinnar, og Franek Rozwadowski, sendifulltrúi sjóðsins á Íslandi, yfir vinnu nefndarinnar og árangur viðræðna.

Fyrsta endurskoðunin tafðist um átta mánuði og önnur um þrjá vegna Icesave málsins. Ekki liggur fyrir hvenær stjórn Alþjóðagjaldeyrissjóðsins tekur fyrir þriðju endurskoðun en búist er við því að málið verði afgreitt fyrir lok sumars.

Gangi það eftir fá Íslendingar aðgang að um 100 milljarða króna láni frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum, Norðurlöndunum og Póllandi.

Efnahagssamstarfi Íslands og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins átti upphaflega að ljúka í nóvember á þessu ári en nú er miðað við að því ljúki ágúst á næsta ári.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×