Viðskipti innlent

Stefnt að hrossaútflutningi í ágúst

Mynd/Stefán
Mynd/Stefán

Stefnt er að því að hefja hrossaútflutning á nýjan leik um miðjan ágúst segir Kristinn Guðnason, formaður Félags hrossabænda. Það verði þó ekki gert nema heilsufar hrossanna sé komið í fullkomið lag en útflutningur hefur legið niðri vegna hóstaveiki sem herjað hefur á velflest hross hér á landi undanfarið. Þetta var niðurstaða fundar hagsmunaaðila sem haldinn var í gær.

„Það sem er að gerast núna er að þeim fer fjölgandi hrossunum sem eru að ná sér,“ sagði Kristinn í gær og kvaðst vera bjartsýnni en áður. Spurður um stöðu hrossaræktenda í landinu sagði Kristinn að góður gangur væri í folaldafæðingum og menn færu óhikað með hryssur sínar undir hesta.

„En staða fjármála hjá þeim sem eru einkum að vinna við hross og hafa tekjur af þeim er mjög slæm. Margt af þessu fólki er ungt og með miklar fjárhagsskuldbindingar. Sumir eru að byggja upp og aðrir með dýra staði á leigu en hafa litlar sem engar tekjur.“

Hann sagði þrjár kynbótasýningar nú fyrirhugaðar. Búið sé að skrá tæp 200 hross í þær. Þegar væri búið að sýna um 240 hross í sumar, en á sama tíma landsmótsárið 2008 hefði verið búið að sýna um 1.500 hross á sama tíma.

Kristinn sagði að það væru skýr skilaboð frá Matvælastofnun að aðgát yrði höfð við lengri hestaferðir sem nú væru að hefjast og héraðsdýralæknar fylgdust með hrossunum. -jss






Fleiri fréttir

Sjá meira


×