Viðskipti innlent

Greiddu tveimur endurskoðendafyrirtækjum 4,5 milljarð

Rannsóknarnefndin telur að sérstakur saksóknari þurfi að rannsaka hvort endurskoðendur hafi brotið starfsskyldur sínar með því að skrifa undir ársreikninga sem ekki gáfu rétta mynd af félögunum sem þeir endurskoðuðu. Vanhöld eru talin vera á ársreikningunum, m.a. hafi eiginfjárhlutföll bankanna ekki endurspeglað raunverulegan styrk þeirra.

Bankarnir þrír fjármögnuðu sjálfir samtals um 300 milljarða króna af eigin hlutafé um mitt ár 2008. Í skýrslunni er þetta kallað veikt eigið fé. Í raun hefði átt að draga slík lán frá eigin fé fjármálafyrirtækis.

Þá hafi gæði útlánasafns bankanna verið byrjuð að rýrna amk 12 mánuðum fyrir fall þeirra og hafi gert það allt fram að fallinu þótt ekki sæist það í reikningsskilum bankanna.

Eignir stóru bankanna þriggja voru endurmetnar í nóvember 2008. Fyrir voru þær tæpir 12 þúsund milljarðar króna - eftir hrun tæpir 4500. Þetta er lækkun um rúmlega 60%. Hálfu ári fyrr hafði þótt hæfilegt að færa eignir niður um 0,7%.

Í skýrslunni er eftirfarandi haft eftir Stefáni Svavarssyni prófessor:

„...ef það er þannig að þessir menn, sem skrifuðu upp á reikninga bankanna, hafi verið í algerri þoku um það hvað væri að gerast í íslenskum bankaheimi þar til í október 2008, að þá náttúrulega voru þeir ekki að vinna vinnuna sína..."

Sex af stærstu fjármálafyrirtækjum landsins greiddu KPMG og PWC um 4,5 milljarð króna á tæpum fimm árum fyrir þjónustu þeirra.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×