Viðskipti innlent

Kópavogur: Bæjarstjórn samþykkir ársreikning

´MYND/GVA

Ársreikningur Kópavogsbæjar fyrir árið 2009 var samþykktur á fundi bæjarstjórnar Kópavogs í gær. Í tilkynningu frá bænum segir að þær breytingar hafi verið gerðar á ársreikningnum milli umræðna að færðar voru til eignar lóðir og lendur sem leigutekjur fást af, í samræmi við breyttar reglur reikningsskila- og upplýsinganefndar sveitarfélaga.

„Þetta þýðir að eigið fé í efnahagsreikningi Kópavogsbæjar, hvort sem litið er til A- eða B-hluta, er um 4,5 milljörðum hærri fjárhæð í árslok 2009 en áður var reiknað með, og er því samtals um 10,4 milljarðar. Eiginfjárhlutfallið er þar með um 20%," segir einnig. Þá er bent á að eins og áður hafi komið fram setji þeir erfiðleikar sem verið hafa á alþjóðlegum og innlendum fjármálamörkuðum mark sitt á fjárhag Kópavogsbæjar vegna ársins 2009. „Þrátt fyrir erfitt rekstrarár, kostnaðarhækkanir og fleira, hefur þó með hagræðingu og útsjónarsemi tekist að halda uppi þjónustustigi í bænum."

Lóðaskilin meiri en úthlutanir á árinu

Rekstrarafgangur af A-hluta var um 1,5 milljarðar að undanskildum fjármagnskostnaði, afskriftum og gjaldfærslu lífeyrisskuldbindinga. Sé hins vegar A og B-hluti ársreikningsins skoðaður er niðurstaðan neikvæð upp á um 4 milljarða. „Þar skiptir mestu máli neikvæðir fjármagnsliðir upp á um 3,9 milljarða, bakfærðar tekjur vegna lóðaskila upp á um 900 milljónir og gjaldfærsla lífeyrisskuldbindinga upp á um 415 milljónir. Vert er að geta þess að lóðaúthlutanir framan af ári gengu vel og námu tekjur vegna þeirra um 2,5 milljörðum króna. Þegar upp var staðið voru lóðaskilin hins vegar meiri," segir að lokum í tilkynningunni.












Fleiri fréttir

Sjá meira


×