Innlent

Bið eftir hjartaaðgerð ekki verið styttri í fimm ár

Meðalbiðtími eftir hjartaaðgerðum hefur ekki verið styttri í fimm ár að því er fram kemur á heimasíðu heilbrigðisráðuneytisins. Í greinargerð Landspítala vegna hjartaaðgerða kemur fram að biðtími eftir aðgerðum í ár sé 1-2 mánuðir, óháð aðgerð.

„Meðalbiðtími eftir hjartaaðgerðum á árunum 2005-2007 var 3-4 mánuðir að vetri en 4-5 mánuðir að sumri. Árið 2008 var meðalbiðtími 5-6 mánuðir eftir hjartalokuaðgerð, en 3-4 mánuðir eftir kransæðaaðgerð. Í fyrra var meðalbiðtíminn 4-5 mánuðir vegna hjartalokuaðgerða og 2-3 mánuðir vegna kransæðaaðgerða. Öll árin hefur áætlaður biðtími heldur lengst yfir sumarmánuðina, en í gegnum tíðina hefur biðtími verið lengstur eftir hjartalokuaðgerð sem ekki er flokkuð í forgangi," segir í frétt á vef ráðuneytisins.

Þá segir að í byrjun september 2008 hafi alls 64 einstaklingar verið á biðlista eftir hjartaaðgerð. Á haustmánuðum ársins 2008 var gert átak og hjartaaðgerðum fjölgað upp í allt að átta aðgerðir á viku. og þann 1. desember það ár hafði fækkað um næstum helming á biðlistanum.

Í greinargerð Landspítala segir að markmiðið sé að biðtími eftir hjartaskurðaðgerðum sé sem stystur. Að öðru leyti sé raðað í aðgerðir með þeim hætti að sjúklingar sem ekki þurfi forgang bíði aldrei lengur en 3 mánuði. „Sjúklingar sem þurfi forgang en séu ekki inniliggjandi bíði mest í 4 vikur og inniliggjandi sjúklingar, sem þurfi forgang, bíði ekki lengur en 1-2 vikur eftir aðgerð," segir að lokum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×