Viðskipti innlent

Auðkýfingur með rússnesk mafíutengsl fékk lán frá Kaupþingi

Þorbjörn Þórðarson skrifar
Hreiðar Már segir Rússann hafa greitt sín lán að fullu.
Hreiðar Már segir Rússann hafa greitt sín lán að fullu.

Kaupþing lánaði rússneskum auðkýfingi sem sakaður er um tengsl við skipulagða glæpastarfsemi um þrjátíu milljarða króna rétt fyrir bankahrunið.

Kaupþing gerði tæplega þrjátíu milljarða króna lánasamning í ágúst 2008 við Gallagher Holdings Limited, sem var í eigu rússneska kaupsýslumannsins Alisher Usmanov. Undirliggjandi hlutabréf í þeim viðskiptum var Mmc Norilsk Adr, alþjóðlegt námufyrirtæki upprunnið í Rússlandi.

Usmanov skuldaði íslenskum bönkum samtals 237 miljónir evra eða ríflega 40 milljarða kr. Langstærstur hluti upphæðarinnar var við Kaupþing.

Í umfjöllun Wikipedia um Usmanov kemur fram að hann sat um sex ára skeið á níunda áratug síðustu aldar í fangelsi í Uzbekistan í Rússlandi eftir að hafa verið dæmdur fyrir mútur og fjárkúgun. Dómur hans hljóðaði upp á átta ára harða refsivist í þrælkunarbúðum.

Hæstiréttur Uzbekistan snéri þessum dómi við árið 2000 og sagði að málaferlin hefðu verið tilbúningur. í viðskiptaheimi Rússlands var Usmanov þekktur sem harðhaus Rússlands eða „the hard man of Russia" eins og það er orðað á vefnum Wikipedia.

Árið 2007 birtist nafn hans í málsskjölum í Denver í Bandaríkjunum þar sem hann var sakaður um fjársvik og skjalafals. Usmanov eignaðist árið 2007 hlut í enska knattspyrnuliðinu Arsenal. Hann hefur aukið hlutdeild sína smátt og smátt og er nú stærsti hluthafinn, en aðdáaendur liðsins hafa opinberlega mótmælt þátttöku hans.

Fréttastofa óskaði í dag eftir upplýsingum hjá Hreiðari Má Sigurðssyni, fyrrverandi forstjóra Kaupþings, um hvers vegna bankinn hefði lánað Rússanum svo háa fjárhæð svo skömmu fyrir hrun. Hreiðar Már svaraði í gegnum almannatengslafulltrúa sinn og sagði að lán Rússans hefði verið greitt upp að fullu, enda væri hann einn ríkasti maður í heimi, eins og það var orðað.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×