Viðskipti innlent

Skilanefndir Landsbankans og Glitnis segjast ekki draga lappirnar

Það fylgir því mikil ábyrgð að vísa málum einstaklinga til sérstaks saksóknara, segir formaður skilanefndar Glitnis. Því þurfi að vanda til verka. Skilanefndir Landsbankans og Glitnis segjast ekki draga lappirnar í því að senda meint lögbrot bankanna í frekari rannsókn, en Kaupþingsmál hafa verið meira áberandi eftir hrun.

Skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis dregur upp dökka mynd af rekstri allra stóru bankanna fyrir hrun.

Mál tengd Kaupþingi hafa hins vegar verið mest áberandi þegar kemur að rannsóknum sérstaks saksóknara. Jóhannes Rúnar Jóhannsson, skilanefndarmaður í Kaupþingi, segir að skilanefndin hafi jafnóðum upplýst yfirvöld um mál þar sem grunur leikur á um lögbrot.

Spurningin er hins vegar hvers vegna meint lögbrot í Landsbankanum og Glitni hafa ekki verið eins hávær í umræðunni.

„Nei það er algjörlega af og frá. Þvert á móti sendum við allt um leið og við verðum varir við eitthvað," segir Páll Benediktsson, upplýsingafulltrúi skilanefndar Landsbankans, aðspurður hvort skilanefndin hafi dregið lappirnar í því að senda mál áfram til yfirvalda.

Páll segir að skilanefndin hafi nú þegar sent nokkur mál til FME og sérstaks saksóknara. Meginástæðan fyrir því að ekki hafi fleiri mál verið send úr Landsbankanum sé sú að Deloitte í London sé að fara í gegnum öll málefni bankans. „Sú vinna er í gangi og á meðan að svo er getum við ekki tekið afstöðu til fleiri mála," segir Páll.

Árni Tómasson, formaður skilanefndar Glitnis, segir að þar á bæ hafi sá kostur verið valinn að flest málin séu rannsökuð ítarlega áður en þau eru send til yfirvalda. Skilanefndin hafi átt gott samstarf við sérstakan saksóknara þó hún hafi ekki formlega sent mörg mál til hans.

„Hversu mikið sem menn vilja flýta sér og drífa sig í að leiða mál til lykta þá er það mjög viðurhlutamikil ákvörðun að vísa málum einstaklinga til sérstaks saksóknara og vanda málin og reyna ekki að sveiflast alveg frá öfgunum sem voru fyrir hrun og eru eftir hrun," segir Árni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×