Viðskipti innlent

Nýsköpun eykur sölu fisks til breskra neytenda

Íslensk ýsuflök með sinnepsdressingu.
Íslensk ýsuflök með sinnepsdressingu.
Viðskiptavinir stærstu smásölukeðju Bretlands eru yfir sig ánægðir með nýja fiskrétti frá Icelandic Group. 55% aukning í sölu fiskrétta er á milli ára í verslunum verslunarkeðjunnar Tesco í Bretlandi.

Tilkoma nýrrar vörulínu frá íslenska fiskframleiðandanum Icelandic Group hefur stóraukið sölu fiskrétta hjá verslunarkeðjunni Tesco í Bretlandi. Fréttastofan IntraFish fjallar um þetta í forsíðufrétt á vefsíðu sinni undir fyrirsögninni „Tesco delighted with saucy brand".

Tesco, sem er stærsta smásölukeðja Bretlands, fylgist náið með því hvernig kauphegðun viðskiptavina sinna þróast. Nýju fiskréttirnir frá Icelandic Group komu á markað í janúar síðastliðnum undir nafninu „The Saucy Fish Co" og hafa umbúðirnar og nýstárlegar bragðtegundir slegið í gegn hjá breskum neytendum.

Nýjustu tölur frá Tesco (sem ná frá mars á þessu ári fram í júní) sýna 55% aukningu milli ára í sölu fiskrétta og þakka yfirmenn verslunarkeðjunnar þetta tilkomu nýju fiskréttanna frá Icelandic Group.

Saucy Fish fiskréttalínan var þróuð með aðstoð svokallaðra rýnihópa þar sem sjálfboðaliðar voru spurðir fjölda spurninga um fiskneyslu sína, ólíkar bragðtegundir, eldunaraðferðir og umbúðir.

Vörulínan hlaut í apríl síðastliðinn hin eftirsóttu Seafood Prix d'Elite verðlaun sem veitt eru á alþjóðlegu sjávarútvegssýningunni í Brussel. Verðlaunin eru veitt árlega og er verðlaunahafinn valinn úr hundruðum nýrra fiskrétta. Einnig hafa umbúðirnar utan um fiskréttina hlotið bresk verðlaun sem bestu umbúðir ársins 2010 fyrir kjöt- og fiskrétti. Saucy Fish fiskréttunum er pakkað í Seachill-verksmiðjum Icelandic Group í Grimsby.

Icelandic Group er í eigu eignarhaldsfélagsins Vestia, sem aftur er í eigu Landsbanka Íslands. Rekstur fyrirtækisins hefur gengið vel. Hagnaður af reglulegri starfsemi (fyrir skatta) nam 3 milljörðum króna á síðasta ári. Skuldir voru greiddar niður um 12 milljarða króna og heildarvelta fyrirtækisins nam jafnvirði 180 milljarða króna sem þýðir að fyrirtækið er eitt hið umsvifamesta í íslenskri eigu nú um stundir.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×