Viðskipti innlent

Vill rukka fyrir ríkisábyrgð

Lilja Mósesdóttir formaður viðskipta­nefndar Alþingis segir ríkið hafa átt að leggja gjald á innstæður í bönkunum fyrir ári.
Lilja Mósesdóttir formaður viðskipta­nefndar Alþingis segir ríkið hafa átt að leggja gjald á innstæður í bönkunum fyrir ári. Mynd/GVA

Ríkið á að krefjast gjalds vegna ríkisábyrgðar á innstæður í bönkunum. Þetta er mat Lilju Mósesdóttur, formanns viðskiptanefndar Alþingis og þingmanns Vinstri grænna. Hún segir að líta megi á það sem borgun fyrir trygginguna.

Lilja segir að með réttu ætti skattféð að renna í varasjóð hins opinbera sem yrði nýtt færi einhver bankanna á hliðina á meðan ríkisábyrgðin er í gildi.

Innstæður í bönkunum nema nú í kringum 1.400 milljörðum króna, sem jafngildir einni landsframleiðslu. Á sama tíma skjóti skökku við að raunávöxtun er neikvæð. Lilja segir það benda til að fjármagnseigendur leiti ekki eftir vöxtum heldur því skjóli sem felist í ábyrgðinni. Ekkert hefur verið rætt um hugsanlegt álag á innstæður. Gjald upp á eitt prósent gæti skilað ríkissjóði fjórtán milljörðum króna í mesta lagi, að mati Lilju. Hún leggur áherslu á að innstæður hafi verið lægri fyrir hrun en aukist eftir það. „Þetta gjald hefði átt að setja á fyrir ári," segir hún.

Gylfi Magnússon, efnahags- og viðskiptaráðherra, lagði fram frumvarp um ný lög um innstæðutryggingar á Alþingi í lok nóvember í fyrra. Það er nú í viðskiptanefnd en verður að líkindum lagt fyrir aðra umræðu á Alþingi eftir um hálfan mánuð. Líklegt er að það verði að lögum um miðjan júní.

Frumvarpið felur í sér að búnir verða til tveir sjóðir. Núverandi Tryggingasjóður innstæðueigenda fer í B-hluta. Nýr tryggingasjóður verður til A-hluta og munu bankarnir greiða í hann 0,3 prósent af innstæðum fjórum sinnum á ári. Í framhaldinu verður innleidd fimmtíu þúsund evra trygging á innstæður. Það jafngildir rúmum 8,5 milljónum króna. Ríkisábyrgð á innstæður mun þrátt fyrir það ekki falla úr gildi á sama tíma. - jab










Fleiri fréttir

Sjá meira


×