Lífið

Opið hús á Korpúlfsstöðum

Opið hús á Korpúlfsstöðum á morgun þar sem tugir listamanna hafa vinnustofur. Hér má sjá leirlistakonur að störfum. Fréttablaðið / Hörður
Opið hús á Korpúlfsstöðum á morgun þar sem tugir listamanna hafa vinnustofur. Hér má sjá leirlistakonur að störfum. Fréttablaðið / Hörður

Á morgun verður vorhátíð í Sjónlistamiðstöðinni á Korpúlfsstöðum þar sem tugir myndlistarmanna hafa haft aðstöðu um árabil í skjóli Reykjavíkurborgar. Það eru fjörutíu myndlistarmenn sem hafa þar aðsetur og reka Sjónlistamiðstöðina.

Í tilefni af vorhátíðinni verður opnuð sérstök sýning á verkum þeirra á hlöðuloftinu og á morgun verður þar í boði dagskrá með fjölbreyttu efni auk þess sem vinnustofur listamanna í húsinu verða opnar upp á gátt.

Hópurinn sem hefur aðstöðu á Korpúlfsstöðum er settur saman af listamönnum úr ólíkum geirum myndlegrar sköpunar; málun, grafík, leirlist, textíl, fatahönnun og landslagsarkitektúr eiga þar sína fulltrúa. Vinnustofurnar eru leigðar út þrjú ár í senn, en Samband íslenskra myndlistarmanna, SÍM, leigir aðstöðuna af Reykjavíkurborg og annast endurleigu til áhugasamra, en ásókn í aðstöðuna er mikil og ræður sérskipuð valnefnd hverjir fá aðstöðu þar. Þá eru þar gestavinnustofur og íbúð fyrir erlenda listamenn.

Hópurinn á Korpúlfsstöðum er vanur því að fá gesti til að skoða hvað er þar á seyði. Fyrsta laugardag hvers mánaðar er þar opið hús og tvisvar á ári er efnt til samsýningar á hlöðuloftinu sem þau segja stærsta og óvenjulegasta sýningarsal á landinu. Að þessu sinni er yfirskrift sýningarinnar Birta.

Á morgun mun hópur salsa-dansara mæta á svæðið, Vox Feminae kemur fram undir stjórn Margrétar Pálmadóttur og Einar Már Guðmundsson les upp.

Veitingasala er starfandi í húsinu á morgun og leikur örugglega mörgum forvitni á hvernig innanstokks er í þessu forna setri Thors Jensen sem var ein stærsta tilraun til að koma á fót stórbúi hér á landi í þann tíma þegar flest býli, jafnvel forn höfuðból, voru smábýli í húsakosti.

Hópurinn stendur fyrir vefsíðu þar sem skoða má hvaða listamenn eru nú um stundir með staðfestu í gamla húsinu á Korpúlfsstöðum: www.korpart.is.

Allir eru velkomnir á morgun til hátíðarhaldanna.

pbb@frettabladid.is








Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.