Erlent

Kjósendur hafa sett Obama skorður

Repúblikanarnir Eric Cantor, agameistari nýja meirihlutans í fulltrúadeild, og John Boehner, nýr forseti fulltrúadeildar, kölluðu fjölmiðla á sinn fund í gærmorgun. fréttablaðið/AP
Repúblikanarnir Eric Cantor, agameistari nýja meirihlutans í fulltrúadeild, og John Boehner, nýr forseti fulltrúadeildar, kölluðu fjölmiðla á sinn fund í gærmorgun. fréttablaðið/AP
Barack Obama Bandaríkjaforseti segist vonast til þess að geta starfað með nýjum meirihluta Repúblikanaflokksins í fulltrúadeild, einkum á sviði orkumála og menntamála.

Hann viðurkenndi að úrslit þingkosninganna á þriðjudag sýndu megna óánægju kjósenda með það hve hægt hefði miðað í efnahagsmálum. Jafnframt sagðist hann bera fulla ábyrgð á því hve hægt hefði gengið. Hins vegar sagði hann ekkert um það hvort hann ætlaði að breyta um stefnu í efnahagsmálum, eins og andstæðingar hans krefjast.

Demókrataflokkurinn missti meirihluta sinn í fulltrúadeild þingsins, en hélt honum í öldungadeildinni, eins og skoðanakannanir höfðu bent til.

Erfið staða í efnahagsmálum virðist hafa ráðið mestu um þessi úrslit, ásamt verulegu fylgi við Teboðshreyfingu Repúblikanaflokksins, eftir því sem fram kom í útgöngukönnunum.

Teboðshreyfingin náði töluverðum árangri í kosningunum, en Sharron Angle tókst þó ekki að fella Harry Reid, öldungadeildarþingmann Nevada-ríkis, sem verður því áfram leiðtogi meirihlutans í öldungadeild.

Öðrum áberandi fulltrúa Teboðshreyfingarinnar, Christine O’Donnell, tókst heldur ekki að komast á þing fyrir Delaware.

Repúblikaninn John Boehner tekur hins vegar við af Nancy Pelosi sem forseti fulltrúadeildar. Hann hefur krafist þess að Obama skipti nú algerlega um stefnu í efnahagsmálum. Úrslit kosninganna sýni að kjósendur krefjist þess.

„Við vonum að Obama forseti muni nú virða vilja fólksins, breyta um stefnu og skuldbinda sig til þess að gera þær breytingar sem það krefst,“ sagði Boehner í gær. „Að svo miklu leyti sem hann er viljugur til þess, þá erum við reiðubúin til að starfa með honum.“

Þegar úrslitin voru orðin nokkuð ljós hringdi Obama í Boehner, sem sagði forsetanum að hann væri reiðubúinn í samstarf um þau mál sem skiptu bandarísku þjóðina mestu. Boehner segist líta svo á að mestu skipti að draga úr ríkisútgjöldum og fjölga atvinnutækifærum.

Margir búast við harðvítugri togstreitu nýja meirihlutans við forsetann næstu tvö árin, þannig að forsetinn eigi mjög erfitt með að koma málum í gegnum þingið.

Erfiðast gæti þó reynst fyrir repúblikana að standa hart gegn ráðstöfunum í efnahagsmálum, sem ekki mega bíða vegna þess hve ástandið er enn erfitt.

gudsteinn@frettabladid.is



Fleiri fréttir

Sjá meira


×