Erlent

Andstæðingar innflytjendalaga fögnuðu

Lagasetningunni var víða mótmælt og fögnuðu andstæðingar þegar lögbann var sett á lögin. Nordicphotos/AFP
Lagasetningunni var víða mótmælt og fögnuðu andstæðingar þegar lögbann var sett á lögin. Nordicphotos/AFP
Andstæðingar umdeildra laga sem stemma eiga stigu við fjölgun ólöglegra innflytjenda í Arizona-ríki í Bandaríkjunum fögnuðu í gær þegar dómari féllst á kröfu alríkisstjórnarinnar og setti lögbann á lagasetninguna.

Ríkisstjóri Arizona, sem hefur beitt sér af hörku fyrir lögunum, sagði í gær að þessari niðurstöðu yrði áfrýjað. Stjórnmálaskýrendur telja víst að málið endi fyrir hæstarétti Bandaríkjanna.

Dómari samþykkti lögbannskröfuna nokkrum klukkustundum áður en lögin umdeildu áttu að taka gildi.

Í lögunum voru meðal annars ákvæði sem hefðu skyldað lögreglumenn til að stöðva alla sem grunur léki á að væru í Arizona ólöglega og krefja þá um skilríki. Þá áttu lögreglumenn í öllum tilvikum að kanna hvort einstaklingar sem væru handteknir væru löglega í ríkinu.

Ríkisstjórn Baracks Obama hefur haldið því fram að aðeins alríkisstjórn Bandaríkjanna geti lögfest stefnubreytingu í innflytjendamálum og barðist því gegn lagasetningu Arizona-ríkis. Vitað er að hátt á annan tug annarra ríkja hafa áhuga á að setja sams konar lög. Þar bíða menn niðurstöðu í þessu dómsmáli með óþreyju. - bj



Fleiri fréttir

Sjá meira


×