Viðskipti innlent

Lánsfjárjöfnuður ríkissjóðs neikvæður um 13,8 milljarða

Samkvæmt greiðsluuppgjöri ríkissjóðs fyrir fyrstu þrjá mánuði ársins var hreinn lánsfjárjöfnuður ríkissjóðs neikvæður um 13,8 milljarða kr. Á sama tíma í fyrra var hreinn lánsfjárjöfnuður því sem næst í jafnvægi, eða neikvæður upp á aðeins 0,1 milljarð kr. og er því staðan nú 13,7 milljörðum kr. verri en á sama tíma í fyrra.

Greining Íslandsbanka fjallar um málið í Morgunkorni sínu. Þar segir að þessi viðsnúningur skýrist einna helst af því að á sama tíma og tekjustofnar ríkissjóðs hafa dregist nokkuð saman hafa útgjöld ríkissjóðs verið að aukast, sérstaklega vaxtagjöld ríkissjóðs.

Þannig reyndust innheimtar tekjur ríkissjóðs á fyrstu þremur mánuðum ársins 11,2 milljörðum kr. minni og gjöldin 7,7 milljörðum kr. meiri en á sama tímabili í fyrra. Þetta kom fram í fréttatilkynningu sem fjármálaráðuneytið birti nýlega á heimasíðu sinni.

Frá áramótum hafa afborganir af lánum ríkissjóðs numið 71,8 milljörðum kr. og voru þær einkum vegna innlendra skulda. Er hér aðallega um að ræða innlausn bréfa í ríkisbréfaflokknum RIKB10 0317 sem var á gjalddaga í mars.

Heildarlánsfjárþörf ríkissjóðs, brúttó, var því 85,6 milljarðar kr. Innlendar lántökur ríkissjóðs námu 46,9 milljörðum kr. og voru þar af seld ríkisbréf fyrir 51,6 milljarða kr. en á móti lækkaði stofn ríkisvíxla um rúma 4,6 milljarða kr. Bætti ríkissjóður þannig greiðslustöðu sína í Seðlabankanum um 40,6 milljarða kr. á fyrsta fjórðungi ársins, þá aðallega vegna innlausnar ríkisbréfaflokksins sem var á gjalddaga í marsmánuði.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×