Viðskipti innlent

Íslenskum verktökum verður ekki gert erfitt fyrir

Norræn og þýsk fyrirtæki hafa um árin ráðið íslenskt starfsfólk hér. Það gera kínversk ekki, segir framkvæmdastjóri Samiðnar.Fréttablaðið/vilhelm
Norræn og þýsk fyrirtæki hafa um árin ráðið íslenskt starfsfólk hér. Það gera kínversk ekki, segir framkvæmdastjóri Samiðnar.Fréttablaðið/vilhelm

Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar, segir engar viðræður hafa átt sér stað við kínversk fyrirtæki um aðkomu að byggingu Búðarhálsvirkjunar. Undirrituð hafi verið viljayfirlýsing við kínverska fyrirtækið CWE og EXIM Bank en hún feli ekki í sér neinar skuldbindingar heldur það að fyrirtækinu sé velkomið að bjóða í verkhluta Búðarhálsvirkjunar.

Samiðn sendi frá sér harðorða ályktun í síðustu viku þar sem hugsanleg aðkoma kínverskra verktaka að virkjuninni er gagnrýnd. Þorbjörn Guðmundsson, framkvæmdastjóri Samiðnar, telur að semji Landsvirkjun við kínverskt fyrirtæki um byggingu virkjunarinnar muni það nýta eigið starfsfólk og fáir ef nokkrir Íslendingar muni fá vinnu við bygginguna. Framkvæmdin hefði því ekki þau áhrif á íslenskt efnahagslíf sem kveðið sé á um í stöðugleikasáttmálanum.

Hörður Arnarson segir verkið boðið út í samræmi við lög um útboð á Evrópska efnahagssvæðinu og lögum samkvæmt sé erlendum fyrirtækjum frjálst að bjóða í verkið. „Landsvirkjun mun á engan hátt gera íslenskum verktökum erfitt fyrir að bjóða í verkið,“ segir Hörður. - jab






Fleiri fréttir

Sjá meira


×