Innlent

Orkan sektuð fyrir auglýsingu

Mynd úr safni.
Mynd úr safni.

Orkan hefur verið sektuð af Neytendastofu vegna auglýsinga fyrirtækisins. Alls þarf Orkan að greiða 600 þúsund krónur í stjórnvaldssekt. Neytendastofu barst kvörtun frá Olíuverslun Íslands vegna fullyrðinga í auglýsingum Bensínorkunnar sem rekur bensínstöðvar Orkunnar.

Auglýsingarnar voru meðal annars birtar í tilefni Ofurdags Orkunnar og kom þar fram að Orkan væri með afslátt af ódýrasta eldsneytinu á Íslandi. Olíuverslun Íslands taldi að um ósanna fullyrðingu væri að ræða og krafðist þess að auglýsingarnar væru bannaðar.

Að mati Neytendastofu gáfu auglýsingar Orkunnar neytendum til kynna að fyrirtækið væri með ódýrasta eldsneytið á Íslandi. Samkvæmt gögnum málsins, meðal annars. frá verðkönnunarþjónustunni GSM-bensín, var ljóst að Orkan var ekki ávallt með ódýrasta eldsneytið á Íslandi á því tímabili sem um var að ræða.

Því voru auglýsingar Orkunnar bannaðar þar sem fyrirtækið gat ekki sannað fullyrðingu sína um ódýrasta eldsneytið á Íslandi. Var Bensínorkunni auk þess gert að greiða stjórnvaldssekt að fjárhæð 600 þúsund krónur þar sem um ítrekað brot var að ræða.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×