Lífið

Spaugstofan ræðst á skýrsluna - lokaþáttur á laugardag

Á laugardaginn fer 381. þáttur Spaugstofunnar í loftið. Ekki liggur fyrir hvort það verði svanasöngur fjórmenninganna.
Á laugardaginn fer 381. þáttur Spaugstofunnar í loftið. Ekki liggur fyrir hvort það verði svanasöngur fjórmenninganna.

Síðasti þáttur Spaugstofunnar í bili verður á laugardaginn. Það þarf kannski ekki að koma neinum á óvart að sá þáttur verði að mestu leyti helgaður skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis sem kynnt var á blaðamannafundi á mánudagsmorgun í Iðnó. Pálmi Gestsson, einn af forkólfum Spaugstofunnar, segir þá félaga hafa aðeins verið að rýna í skýrsluna á Netinu og fréttir af henni.

„Við erum svona að velta því fyrir okkur hvernig við tökum á þessu. Við erum ekki komnir með neinar skýrar línur fyrir þáttinn á laugardaginn, hann er í vinnslu," útskýrir Pálmi og bætir við að þeir þurfi kannski ekkert að skrifa neitt handrit, sum ummælanna í skýrslunni geti bara vel staðið á eigin fótum í Spaugstofunni.

Pálmi segir skýrsluna hafa komið sér á óvart. „Hún er svo afdráttarlaus og skýr og staðfesti í raun þá hluti sem alla grunaði en höfðu ekki hugmynd um að væri fótur fyrir," segir Pálmi. „Sárast í þessu öllu er kannski að ég hélt að ég byggi í vestrænu og óspilltu landi en vakna upp, á miðjum aldri, í drullupolli."

Þegar talið berst hins vegar að framtíð Spaugstofunnar sjálfrar segir Pálmi að þeir viti ekki betur en að þessi þáttur verði þeirra síðasti. Páll Magnússon útvarpsstjóri tekur ekki undir þau orð. Hann segir enga ákvörðun hafa verið tekna um framhaldið, hún ætti þó að liggja fyrir í maí. Stöðugar sögusagnir hafa verið á kreiki um að Spaugstofan hætti eftir þetta ár en hún hefur verið í loftinu síðasta 21 ár. „Við setjum niður haustdagskrána í maí og þá kemur þetta allt í ljós," segir Páll.- fgg








Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.