Lífið

Rósa Guðmunds spilar fyrir lykilfólk hjá Sony

Rósa Guðmundsdóttir reynir að koma sér á framfæri í tónlistarbransanum í New York.
Rósa Guðmundsdóttir reynir að koma sér á framfæri í tónlistarbransanum í New York.

„Næst á dagskrá er að koma fram fyrir lykilfólk innan Sony," segir tónlistarkonan Rósa Guðmundsdóttir.

Rósa hefur búið í New York undanfarin ár og unnið að því að koma sér á framfæri í tónlistarbransanum. Hún kemur ein fram ásamt því að starfa með hljómsveit sinni The Ultratight. Rósa á í viðræðum við plötuútgáfuna Jive, sem er undir útgáfurisanum Sony og gefur meðal annars út Britney Spears og Justin Timberlake. Hún segir tónlistarbransann hafa breyst mikið í kjölfar kreppunnar og að aldrei hafi verið erfiðara að komast á samning.

„Þetta snýst bara um einu manneskjuna sem trúir á mann," segir Rósa. „Ég er komin með lykilmanneskju innan Jive. Við sjáum bara hvert það leiðir."

Næsta skref Rósu er að koma fram á svokölluðum „showcase"-tónleikum, en þangað mætir lykilfólk innan Sony. Tónleikarnir fara fram á litlum bar í hinni víðfrægu Trump-byggingu í New York.

„Núna er svo erfitt að fá fólk frá útgáfunum til að fara út og sjá fólk spila," segir hún. „Plötufyrirtækin taka ekki sénsa lengur. Það þarf að vera manneskja sem trúir á þig 240 prósent. Hann þarf að leggja starfið undir til þess að plötufyrirtæki taki séns. Annaðhvort þarf að gera eins og pabbi Taylor Swift, leggja til tvær milljónir dollara til að koma þér inn eða að manneskjan frá útgáfunni verði að trúa á þig. Sem betur fer er ég komin með eina svoleiðis manneskju innan Jive."

Þeir sem vilja fylgjast með ævintýrum Rósu geta leitað að hljómsveit hennar, Rosa & the Ultratight á Facebook. - afb












Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.