Viðskipti innlent

ÍLS yfirtekur 50 milljarða húsnæðislán sparisjóðanna

Undanfarnar vikur og mánuði hefur Íbúðalánasjóður tekið yfir rúmlega 50 milljarða króna húsnæðislán Sparisjóðanna sem hann átti veð í. Að auki hefur sjóðurinn keypt upp lánasöfn nokkurra sparisjóða fyrir um fimmtán millarða.

Þetta kom fram í hádegisfréttum á RUV. Þar kom fram að fjölmargir þeirra sem nýttu sér íbúðalán bankanna þegar þeir komu inn á markaðinn fyrir fimm árum, notuðu féð til að greiða upp lán sín hjá Íbúðalánasjóði. Peningarnir fóru þá í nokkurs konar hring, því sjóðurinn lánaði þá aftur til banka og sparisjóða en tók á móti veð í íbúðalánum þeirra, samtals um 80 milljarða króna.

Nú hefur Íbúðalánasjóður gengið að rúmum helmingi þessara veð, segir framkvæmdastjórinn, Guðmundur Bjarnason. Hann segir að samningar hafi verið gerðir við meirihluta sparisjóðanna, 15-18 sparisjóði í heildina. Íbúðalánasjóður sé nú búin að leysa til sín bréf frá þeim öllum.

Inni í þessu eru stærstu sparisjóðirnir, þar með taldir Byr og Sparisjóður Keflavíkur. Samanlagt hefur Íbúðalánasjóður leyst til sín með þessum hætti hátt í 4000 húsnæðislán, fyrir um 50 milljarða króna.

Þetta þýðir fyrir venjulegt fólk að nú kemur rukkunin frá Íbúðalánasjóði en ekki frá þeim sparisjóði sem lánaði því í upphafi, að því er sagði í frétt RUV.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×