Viðskipti innlent

OECD: Hagvöxtur á Íslandi verður 2,3% á næsta ári

Í nýrri skýrslu frá OECD um efnahagshorfur á Íslandi kemur fram að stofnunin spáir 2,3% hagvexti á næsta ári. Samkvæmt skýrslunni eru efnahagshorfurnar á Íslandi ívið bjartari en fyrri spár gerðu ráð fyrir.

Hvað hagvöxtinn varðar segir OECD að hann hafi verið neikvæður um 6,5% á síðasta ári en í desember í fyrra taldi OECD hagvöxtinn hafa verið neikvæðan um 7%. Í ár verður hagvöxturinn að mati OECD neikvæður um 2,2% sem er ívið betri útkoman en í síðustu skýrslu OECD.

Af öðrum lykiltölum í skýrslunni um Ísland segir að atvinnuleysið í ár verði 8,7% og að lítið dragi úr því á næsta ári þegar OECD metur að það verði 8,4%.

Halli á fjárlögum sem hlutfall af landsframleiðslu er talinn verða 6,4% í ár en að hann minnki síðan töluvert og verði kominn niður í 2,7% á næsta ári.

OECD reiknar með að verðbólgan minnki niður í 5,7% í ár og minnki síðan áfram á næsta ári niður í 4,2%.

Hvað hagvöxtinn varðar gerir OECD ráð fyrir því að hann breytist úr mínus í plús á seinnihluta þessa árs. Er það í samræmi við nýjustu spá Seðlabanka Íslands.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×