Innlent

Skarphéðinn Berg: Yfirvöld mega ekki komst upp með svona fúsk

Skarphéðinn Berg Steinarsson.
Skarphéðinn Berg Steinarsson.

„Það er ljóst að þessi embætti fóru offari í þessu máli. Það var algjörlega ástæðulaust og tilefnislaust að fara í svona íþyngjandi aðgerðir þegar ekki meiri ástæða var til heldur enn í þessu tilfelli,“ segir Skarphéðinn Berg Steinarsson. Vinnubrögð embættis Skattrannsóknarstjóra og Tollastjórans í Reykjavík einkennast af fúski, að hans mati.

Hæstiréttur hefur staðfest úrskurð héraðsdóms sem felldi úr gildi ákvörðun sýslumanns um kyrrsetningu eigna Skarphéðins þar sem lagalegar heimildir skorti. Um miðjan síðasta mánuð fór skattrannsóknarstjóri fram á að eignir Skarphéðins Bergs og þriggja annarra fyrrverandi forsvarsmanna FL Group yrðu kyrrsettar. Þeir eru grunaðir um refsiverða háttsemi í tengslum við brot félagsins á lögum um virðisaukaskatt. Sýslumaðurinn í Reykjavík féllst á beiðnina og voru bankainnistæður, fasteign og bifreið Skarphéðins í framhaldinu kyrrsettar. Þeirri kyrrsetningu hefur nú verið aflétt.

Brýnt að fara varlega með íþyngjandi aðgerðir

„Þessi niðurstaða er í samræmi við það sem við héldum fram allan tímann þannig að hún kemur ekki á óvart,“ segir Skarphéðinn aðspurður um dóm Hæstaréttar. Hann segir of snemmt að segja til um hvort hann leiti réttar síns. „En þessi dómur sýnir að yfirvöld verða að fara mjög varlega með svona íþyngjandi aðgerðir.“

Dómstólar telja að í lögum um tekjuskatt sé ekki að finna heimild til kyrrsetningar vegna meintra brota á lögum um virðisaukaskatt líkt og vísað var til í umræddu máli. Skarphéðinn segir að lögunum sé ekki að finna allsherjarheimild fyrir skattrannsóknarstjóra til að „kyrrsetja eignir manna hægri og vinstri.“

Þá segir Skarphéðinn að þegar málið kom upp í síðasta mánuði hafi honum verið lofað af skattrannsóknarstjóra að hann fengi andmælaskjal innan tíu daga. Slíkt skjal hafi hann hins vegar ekki enn fengið. Það sýnir að rannsókn yfirvalda er eitt allsherjar furðuverk, að mati Skarphéðins.

Skarphéðinn segir ljóst að vinnubrögð skattrannsóknar- og tollstjóra eru óheimil. „Það sem skiptir mestu máli er að menn komist ekki upp með svona fúsk.“


Tengdar fréttir

Kyrrsetning eigna felld úr gildi

Hæstiréttur hefur staðfest úrskurð héraðsdóms sem felldi úr gildi ákvörðun sýslumanns um kyrrsetningu eigna Skarphéðins Bergs Steinarssonar þar sem lagalegar heimildir skorti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×