Viðskipti innlent

Áliðnaður nýtir þrjá fjórðu orkunnar

Í nýrri skýrslu um orkumarkaðinn segir að sá geiri verði í lykilhlutverki við uppbyggingu atvinnulífsins hér. Fréttablaðið/GVA
Í nýrri skýrslu um orkumarkaðinn segir að sá geiri verði í lykilhlutverki við uppbyggingu atvinnulífsins hér. Fréttablaðið/GVA

 Áliðnaðurinn nýtir meira en 75 prósent af allri raforku sem framleidd er í landinu, að því er fram kemur í nýrri skýrslu Íslandsbanka um íslenskan jarðhitamarkað.

„Aðrar iðngreinar, til dæmis kísiljárniðnaður, nota um 11 prósent orkunnar en raforkunotkun til heimilisnota er einungis um 5 prósent af heildarraforkunotkun á landinu,“ segir í tilkynningu bankans.

Þá kemur fram í skýrslunni að fram undan sé um 300 milljarða króna fjárfesting í orkugeiranum og að þörf sé á utanaðkomandi fjármagni. „Ef tekin er með í reikninginn tryggð lánsfjármögnun Hellisheiðar- og Hverahlíðarvirkjana er heildarupphæð þeirrar fjármögnunar sem nú er þörf 2,4 milljarðar Bandaríkjadala,“ segir í skýrslunni.

Lágt orkuverð hér á landi er hins vegar sagt helst standa í vegi fyrir því að erlendir fjárfestar telji verkefni tengd virkjunum hér á landi nægilega hagfelld. Þróunarkostnaður sé samkeppnishæfur við það sem gerist annars staðar.

Þá kemur fram að mörg fyrirtæki í orkufrekum iðnaði líti til þess að hefja hér starfsemi, en fjárhagsleg áhætta við forrannsóknir og þróun jarðhitaorku hafi verið hindrun í vegi þess að fá einkaaðila með í slík verkefni.- óká






Fleiri fréttir

Sjá meira


×