Viðskipti innlent

Krónumarkaður er 0,15% af því sem hann var fyrir bankahrun

Veltan á millibankamarkaði með gjaldeyri það sem af er ári er einungis 0,15% af sem hún var á sama tíma 2008.

Aðeins ein viðskipti hafa verið á millibankamarkaði með gjaldeyri þar sem af er mánuðinum.  

Fjárhæð viðskiptanna nam 315 milljónum króna en þau voru á sjötta degi mánaðarins.

Aðra daga hafa engin viðskipti verið, segir í Morgunkorni Íslandsbanka.

Í júní voru viðskipti fimm daga mánaðarins. Heildarveltan þann mánuð var 941 milljónir króna.

Greiningardeild Íslandsbanka segir að millibankamarkaður með gjaldeyri sé óvirkur um þessar mundir. Veltan á millibankamarkaði sé ekki nema brot af því sem áður var.

Þannig var veltan það sem af er ári rétt tæpir 8,3 milljarðar eða um 1,2 milljarðar króna í hverjum mánuði.

Til samanburðar má nefna að á sama tímabili árið 2008 nam heildarveltan á millibankamarkaði 5.615 milljörðum króna eða um 802 milljarðar króna í mánuði hverjum.

Veltan það sem af er ári var því einungis 0,15% af því sem hún var á þessum tíma 2008.

Samanburðurinn sýnir þær breytingar sem hafa orðið á gjaldeyrismarkaðinum og hversu lokað hagkerfið er gagnvart þeim viðskiptum sem fyrir bankahrunið mótuðu þann markað og gengi krónunnar, segir greiningardeildin.  








Fleiri fréttir

Sjá meira


×