Viðskipti innlent

Einkaneyslunni hjálpað af botni kreppunnar

Einkaneysla virðist heldur hafa rétt úr kútnum það sem af er liðið vetri, ef marka má kortaveltutölur Seðlabankans. Margt hefur lagst á árarnar við að hjálpa einkaneyslunni upp úr botni kreppunnar.

Fjallað er um málið í Morgunkorni greiningar Íslandsbanka. Þar segir að þó sé einkaneyslan enn til muna minni en raunin var fyrir hrun sem eðlilegt er miðað við það fjárhagslega högg sem heimilin hafa orðið fyrir.

Samkvæmt tölum Seðlabankans um greiðslumiðlun sem birtar voru á föstudaginn nam kreditkortavelta í nóvember 25,5 milljörðum kr. og var það 7,5% meiri velta í krónum talið en í sama mánuði í fyrra. Að raungildi, miðað við þróun vísitölu neysluverðs og gengisvísitölunnar, jókst kreditkortavelta um 10,3% milli ára. Má þakka það fyrst og fremst 41,9% raunaukningu í erlendri kortaveltu á milli ára, en innlend kreditkortavelta jókst um 4,6% á sama tíma.

Svipuð þróun varð á debetkortaveltu, en debetkortavelta í innlendum verslunum nam 19,3 milljörðum kr. í nóvember og jókst að raungildi um 3,1% frá sama mánuði í fyrra. Má bæta við þetta að velta í dagvöruverslun jókst um 3,3% að raungildi á þessum tíma samkvæmt tölum sem Rannsóknasetur verslunarinnar birti á föstudaginn. Þær tölur segja því sömu sögu.

Samanlagt gefur raunbreyting kreditkortaveltu og debetkortaveltu í innlendum verslunum góða mynd af þróun einkaneyslu hérlendis. Á þann kvarða jókst kortavelta um 7,1% að raungildi í nóvember frá sama mánuði í fyrra. Er það fjórði mánuðurinn í röð þar sem kortavelta eykst að raungildi milli ára, mælt með þessum hætti. Þetta er vísbending um að heimilin séu heldur að auka við sig neyslu eftir að hafa hert beltin verulega undanfarin tvö ár.

Einkaneyslan jókst um 1,8% á þriðja ársfjórðungi í fyrsta sinn frá því á fyrsta ársfjórðungi 2008, eða m.ö.o. fyrir hrun. Fyrstu vísbendingar um einkaneysluna á fjórða ársfjórðungi eru þannig að vöxturinn verði jafnvel meiri en á þeim þriðja.

Kaupmáttur launa er tekinn að mjakast upp á við, verðbólgan hefur verið að lækka, laun hækka, vextir að lækka og gengi krónunnar að styrkjast, auk þess hefur húsnæðisverð verið að hækka. Hefur þetta allt verið að hjálpa einkaneyslunni upp úr botni kreppunnar, að því er segir í Morgunkorninu.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×