Viðskipti innlent

Útvarpsgjald fellt úr vísitölunni enda orðið skattur

Hagstofan hefur ákveðið að fella útvarpsgjaldið fyrir RUV út úr mælingum á vísitölu neysluverðs. Þetta gerir Hagstofan þar sem hún telur að búið sé að breyta gjaldinu úr afnotagjaldi og yfir í skatt. Breytingin tekur gildi í janúar n.k. og mun lækka vísitölunum um 0,4% í þeim mánuði.

Fjallað er um málið á vefsíðu Hagstofunnar. Þar segir að útgjöld heimila mynda umfang vísitölu neysluverðs. Þjónustugjöld eru tekin með í vísitölu neysluverðs, hvort sem móttakendur þeirra eru opinberir- eða einkaaðilar, ef hægt er að líta svo á að gegn greiðslu þeirra fáist ákveðin þjónusta í staðinn.

Þessi skilgreining á þjónustugjöldum er alþjóðleg og er til dæmis notuð í samræmdri vísitölu neysluverðs. Dæmi um þjónustugjöld af þessu tagi eru skólagjöld, gjöld vegna heilbrigðisþjónustu og afnotagjald RÚV.

Í sumum tilvikum er opinber þjónusta veitt án endurgjalds og er þá litið svo á að þjónustan sé með í umfangi vísitölunnar en verð hennar sé ekki neitt (núll). Séu þjónustugjöldin innheimt sjálfkrafa óháð veittri þjónustu er litið á þau sem beinan skatt og þau ekki tekin með við útreikning neysluverðsvísitölunnar.

Útvarpsgjald tók við af afnotagjöldum RÚV árið 2009. Það er innheimt samhliða álagningu opinberra gjalda. Sömu aðilar greiða gjaldið og greiða í framkvæmdasjóð aldraðra. Þegar útvarpsgjaldið var tekið upp var það kynnt sem breyting á innheimtuformi sem yrði áfram eyrnamerkt starfsemi Ríkisútvarpsins o.hf.

Hagstofan taldi ekki um eðlisbreytingu á gjaldinu að ræða heldur væri eingöngu verið að breyta formi innheimtunnar. Hún hélt því afnotagjaldinu inni í vísitölu neysluverðs. Enda var það svo, árin 2009 og 2010, að innheimtar tekjur af gjaldinu runnu nær óskert til Ríkisútvarpsins ohf.

Í fjárlögum fyrir árið 2011 hefur þessu fyrirkomulagi verið breytt. Gjaldið var hækkað en jafnframt var fjárveiting til Ríkisútvarpsins ohf. skert frá fyrra ári. Í ljósi þessa lítur Hagstofan nú á útvarpsgjaldið sem beinan skatt. Í Hollandi má finna fordæmi um sambærilega meðferð.

Afnotagjald hollenska ríkisútvarpsins var afnumið árið 2000 og tekjuskattshlutfall hækkað til að standa undir afnotagjöldunum. Til að bregðast við afnámi gjaldsins lækkaði hollenska hagstofan verð á þjónustunni niður í ekki neitt (núll) og mældi áhrifin af því í vísitölu neysluverðs.

Verð þjónustunnar í grunni vísitölunnar verður því ekki neitt (núll) í janúar 2011 með þeim verðlagsáhrifum sem það veldur (u.þ.b. 0,4% áhrif til lækkunar).








Fleiri fréttir

Sjá meira


×