Viðskipti innlent

Íbúðalánasjóður þarf að fá tugmilljarða á næstu árum

Starfshópur á vegum félagsmálaráðuneytisins telur Íbúðalánasjóð þurfa allt að tuttugu milljarða króna frá ríkinu til ársins 2014 til að eiginfjárhlutfall sjóðsins verði eins og vera eigi.

„Þetta verða klárlega yfir tíu milljarðar og jafnvel allt að tuttugu milljarðar sem þarf að leggja Íbúðalánasjóði til á næstu árum," segir Bolli Bollason, ráðuneytisstjóri í félagsmálaráðuneytinu og formaður starfshópsins. Að sögn Bolla á Íbúðalánasjóður að skila Fjármálaeftirlitinu niðurstöðum á mánudag. Setja eigi fram áætlun um eiginfjárstöðu til ársins 2014. Meta þurfi útlánatap vegna bankahrunsins.

„Það er ekki auðvelt að gera áætlanir um útlánatöp fram í tímann og við getum ekki nefnt heildartölu um það hvað ríkið þarf að leggja í sjóðinn. Það er hins vegar alveg augljóst að það er framundan útlánatap sem verður einhverjir milljarðar á hverju ári," segir Bolli. Mest verði tapið á þessu ári og því næsta. Uppistaðan í tapinu sé vegna greiðsluerfiðleika lántakenda.

Reglur segja að stefnt skuli að fimm prósenta eiginfjárhlutfalli Íbúðalánasjóðs. Lágmarks hlutfall eiginfjár hjá bönkunum er nú sextán prósent.

„Íbúðalánasjóður er í ríkisábyrgð og tryggður upp í topp. Því má rökstyðja að þar sé ekki þörf fyrir jafn hátt eiginfjárhlutfall og í almennri bankastarfsemi. En það má líka færa rök fyrir því að það eigi að vera hærra en fimm prósent. Þetta mun Fjármálaeftirlitið væntanlega vega og meta," segir Bolli.

Gunnar Þ. Andersen, forstjóri Fjármálaeftirlitsins, segir hins vegar að lög kveði ekki á um aðkomu Fjármálaeftirlitsins að því að ákvarða eiginfjárhlutfall Íbúðalánasjóðs. „Þetta er hálf laust í reipunum hvað varðar aðkomu okkar. Hún er allt önnur en aðkoma okkar að fjármálafyrirtækjum," segir forstjóri FME. - gar






Fleiri fréttir

Sjá meira


×