Viðskipti innlent

Tchenguiz bræður vilja fjögur hundruð milljarða frá Kaupþingi

Sigríður Mogensen skrifar

Bræðurnir Robert og Vincent Tchenguiz, sem voru meðal stærstu viðskiptavina Kaupþings, gera yfir fjögur hundruð milljarða króna skaðabótakröfur í þrotabú bankans. Kröfurnar koma frá tveimur vogunarsjóðum á Guernsey og Tortóla. Tchenguiz bræður fengu á sínum tíma hátt í þrjú hundruð milljarða að láni hjá bankanum.

Þar má sjá að sjóðurinn Investec Trust Limited á Görnsí gerir 127 milljarða króna skaðabótakröfu í þrotabúið og sjóður að nafni Euro Investments Overseas á Tortóla gerir skaðabótakröfu upp á 317 milljarða króna. Heimildir fréttastofu herma að sjóðirnir séu í eigu bræðranna Robert og Vincent Tchenguiz, þekktra fjárfesta á Bretlandseyjum. Samtals gerir þetta rúma 440 milljarða króna, og er því í hópi stærstu krafnanna.

Robert Tchenguiz var einn helsti viðskiptavinur Kaupþings og náinn viðskiptafélagi eigenda bankans. Hann átti hlut í Existu og sat í stjórn þess félags, en Exista var stærsti eigandi Kaupþings. Hann mun hafa farið illa út úr hruninu 2008.

Samkvæmt lánabókinni sem lak á netið í sumar voru Tchenguiz bræður í hópi stærstu lántakenda fallna bankans en þeir fengu samtals rúmlega tvö hundruð og áttatíu milljarða að láni hjá Kaupþingi.

Heimildamenn fréttastofu telja ólíklegt að skaðabótakröfurnar verði samþykktar af slitastjórn Kaupþings, enda séu þær tilhæfulausar.

Um er að ræða lagalegan ágreining milli Kaupþings og bræðranna, sem tengist viðskiptum í Bretlandi.

Bræðurnir verða því seint meðal eigenda Arion banka, sem er kominn í hendur kröfuhafa Kaupþings.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×