Lífið

Ísbjörn raunhæfur möguleiki í Húsdýragarðinum

Tómas Óskar Guðjónsson segir það vel raunhæft að hafa ísbjörn í Fjölskyldu- og húsdýragarðinum eins og Besti flokkur Jóns Gnarr hefur talað fyrir. Alþjóðleg ísbjarnasamtök hafa lýst yfir áhuga sínum á að taka þátt í slíku verkefni.
Tómas Óskar Guðjónsson segir það vel raunhæft að hafa ísbjörn í Fjölskyldu- og húsdýragarðinum eins og Besti flokkur Jóns Gnarr hefur talað fyrir. Alþjóðleg ísbjarnasamtök hafa lýst yfir áhuga sínum á að taka þátt í slíku verkefni.
Forstöðumaður Fjölskyldu- og húsdýragarðsins segir að hugmynd Jóns Gnarr um ísbjörn í garðinum sé vel framkvæmanleg. Jón segist enda ekki vera að grínast.

„Þetta er auðvitað allt spurning um fjármagn. Fyrir borgina held ég að þetta sé ekki óyfirstíganlegt. Til þess að þetta sé gert almennilega gæti þetta kostað eins og að byggja hálfa sundlaug,“ segir Tómas Óskar Guðjónsson, forstöðumaður Fjölskyldu-og húsdýragarðsins, þegar hann er inntur eftir því hvort það sé raunhæft að vera með ísbjörn í garðinum. Besti flokkurinn, senuþjófur undanfarna daga, hefur talað fyrir því í kosningabaráttunni sinni.

Tómas upplýsir að formaður flokksins, Jón Gnarr, ætli að setjast niður með starfsfólki garðsins yfir hádegismat á næstunni og ræða við það hvernig hann telji að megi bæta húsdýragarðinn. Þetta vinsæla afþreyingarsvæði hefur ekki áður verið í jafnmiklu hlutverki í kosningabaráttu fyrir borgarstjórnarkosningar og Tómas telur það ánægjulegt að sjá Fjölskyldu- og húsdýragarðinn aftur á dagskrá. Meðal annarra hugmynda sem Besti flokkurinn hefur lagt fram er að reisa lundabjarg en sú yfirlýsing að slátra ætti öllu sauðfé og grilla það var hins vegar grín.

Jóni Gnarr, formanni Besta flokksins, er full alvara með ísbjarnar­hugmynd sinni. „Við erum búin að hafa samband við Polarbear International og þeir hafa sýnt þessu verkefni mikinn áhuga. Þeir vilja koma að þessu verkefni með öllum mögulegum hætti og þetta er því ekki eitthvað sem er úr lausu lofti gripið,“ segir Jón og bendir á að það hafi ekki verið nein sérstaklega góð landkynning þegar landflótta ísbirnir voru skotnir hér á landi. Að sögn Jóns gengur hugmyndin út á það að byggja sérstakt svæði fyrir ísbirni sem hingað reka á land. Þeir yrðu fluttir þangað, hlúð að þeim og svo sleppt í sínu náttúrulega umhverfi. Jón hefur engar sérstakar áhyggjur af því að ísbirnir séu hættir að koma hingað enda hafi sérfræðingar frá Polarbear International bent á að komum þeirra til Íslands muni frekar fjölga heldur en hitt vegna loftslagsbreytinga. „Ef svo ólíklega vill til að það gerist þá fáum við bara lánaðan ísbjörn frá Grænlandi til að nýta þetta svæði.“

Jóni er einnig full alvara með lundabjarginu enda hafi hann séð svoleiðis í dýragarðinum í Seattle. „Ég vil sjá Fjölskyldu- og húsdýragarðinn verða að einhvers konar heimskautagarði sem komi fólki sífellt á óvart. Þetta hefði mikið aðdráttarafl fyrir erlenda ferðamenn,“ segir Jón.

freyrgigja@frettabladid.is
Jón Gnarr





Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.