Viðskipti innlent

Fjárfestingabanki gjaldþrota vegna gengistryggðu lánanna

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Stjórn fjárfestingabankans Askar Capital hf hefur samþykkt að óska eftir slitameðferð á félaginu og beint kröfu þess efnis til Héraðsdóms Reykjavíkur. Þá hefur stjórn dótturfélags Askar Capital, Avant, óskað eftir að Fjármálaeftirlitið skipi bráðabirgðastjórn félagsins.

Í tilkynningu frá Askar Capital segir að dómur Hæstaréttar um ólögmæti gengistryggingar hafi mikil áhrif á efnahag Askar Capital og Avant. Þann 31. maí síðastliðinn hafi eignir Avant verið metnar á 23 milljarða króna en eftir dóminn séu eignirnar metnar á 9 - 13 milljarða eftir því hvaða vaxtaviðmiðun sé notuð. Vegna óvissu um vaxtaútreikning gengislána hafi kröfuhafar ekki náð niðurstöðu um fjárhagslega endurskipulagningu Avant. Gert er ráð fyrir að niðurstaða fáist þegar þeirri óvissu léttir.

Stjórn Avant telur sig ekki hafa umboð til áframhaldandi setu í félaginu þar sem eiginfjárstaða félagsins sé neikvæð um að lágmarki 10 milljarða og endurskipulagning óvissu háð. Því hefur stjórnin óskað eftir því við Fjármáleftirlitið að það skipi félaginu bráðabirgðastjórn á meðan á endurskipulagningu stendur.

Þá segir í tilkynningunni að staða móðurfélagsins, Askar Capital, sé mjög háð afkomu Avant. Þann 31. maí síðarliðinn hafi eignir Askar Capital verið metnar á um 10 milljarða króna og skuldir þess á 6,5 milljarða. Eiginfjárstaðan hafi því verið jákvæð um 3,5 milljarða,. Askar Capital eigi kröfu á Avant sem hafi verið metin á 7 milljarða í lok maí. Þessi krafa gjaldfærist að fullu eftir dóm Hæstaréttar og því verði eiginfjárstaða félagsins neikvæð um 3,5 milljarða. Þar sem ekki liggi fyrir samkomulag við kröfuhafa um endurskipulagningu þess hafi stjórn Askar samþykkt að óska eftir slitameðferð á félaginu.














Fleiri fréttir

Sjá meira


×