Viðskipti innlent

NSA kaupir 35% af hlutafé í Kerecis ehf.

Lækningavörufyrirtækið Kerecis ehf. og Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins (NSA) tilkynntu í dag um undirritun fjárfestingarsamnings. Samkvæmt samningnum mun NSA kaupa 35% í Kerecis í formi hlutafjár og jafnframt veita fyrirtækinu lán með breytirétti. Fjárfestingin verður í nokkrum áföngum næstu 12 mánuði og eru áfangagreiðslur háðar framgangi þróunarverkefna Kerecis.

Í tilkynningu segir að Kerecis ehf. fæst við rannsóknir, vöruþróun og framleiðslu á lækningavörum unnum úr fiskipróteinum. Vörur fyrirtækisins eru til notkunar á sjúkrahúsum til meðhöndlunar á vefjasköðum. Vörur og tækni fyrirtækisins eru á þróunarstigi og er skráning á einkaleyfum hafin til að verja tækni félagsins. Starfsmenn og stofnendur Kerecis hafa áralanga reynslu í þróun á lækningavörum og klínískri þróunar- og prófunarvinnu.

„Tækni Kerecis byggir á hagnýtingu á próteinum úr fiski til meðhöndlunar á sköðuðum vef. Frumathuganir félagsins benda til þess að tæknin henti mjög vel til meðhöndlunar á vefjaskemmdum í mönnum og með aðkomu Nýsköpunarsjóðs komum við til með að geta hleypt af stokkunum klínískum prófunum á vörum okkar strax í upphafi árs 2010," segir Dr. Baldur Tumi Baldursson, læknir, meðstofnandi og yfirmaður lækningasviðs Kerecis.

„Það er ánægjulegt að fá tækifæri til að fjárfesta í fyrirtæki einsog Kerecis. Við höfum mikla trú á fyrirtækinu. Þarna koma saman reyndir stjórnendur og góðir vísindamenn sem sjá markaðstækifæri í fyrir lækningarvöru byggða á íslenskri þekkingu og íslensku hráefni. Það er okkar von að þetta verði upphafið að farsælu samstarfi við Kerecis og að fjárfesting Nýsköpunarsjóðs í fyrirtækinu hjálpi til við að skapa verðmæt störf, afla gjaldeyris og skili góðri ávöxtun til sjóðsins," segir Finnbogi Jónsson, framkvæmdarstjóri, Nýsköpunarsjóð atvinnulífsins.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×