Erlent

Sendiráðum lokað í Jemen

Leiðtogar Al Kaída í Jemen Abu Hurayrah Qasim al-Reemi, Said al-Shihri, Naser Abdel Karim al-Wahishi og Abu al-Hareth Muhammad al-Oufi. Þeir al-Shihri og al-Oufi voru báðir í haldi Bandaríkjamanna í Guantanamo á Kúbu. fréttablaðið/AP
Leiðtogar Al Kaída í Jemen Abu Hurayrah Qasim al-Reemi, Said al-Shihri, Naser Abdel Karim al-Wahishi og Abu al-Hareth Muhammad al-Oufi. Þeir al-Shihri og al-Oufi voru báðir í haldi Bandaríkjamanna í Guantanamo á Kúbu. fréttablaðið/AP

Sendiráðum Bandaríkjanna og Bretlands í Jemen hefur verið lokað af öryggisástæðum. Bandaríkjastjórn segist hafa haft veður af áformum Al Kaída um að gera árás á Bandaríkjamenn í landinu, hugsanlega á sendi­ráðið.

„Við ætlum okkur ekki að taka neina áhættu,“ segir John Brennan, yfirmaður hryðjuverkavarna Hvíta hússins í Washington.

Eftir að nígerískur maður, sem talinn er hafa hlotið hryðjuverkaþjálfun í búðum Al Kaída í Jemen, gerði tilraun til að sprengja upp bandaríska farþegaþotu á jóladag hafa bæði bresk og bandarísk stjórnvöld hert öryggisráðstafanir og hvatt ríkisborgara sína þar í landi til að hafa varann á.

Bæði ríkin hafa einnig aukið verulega fjárstuðning við stjórnina í Jemen, sem á að nota til þess að efla hryðjuverkavarnir lögreglunnar í landinu.

Í tilkynningu frá Bandaríkjamönnum segir ekkert um það hve sendiráðið verður lokað lengi. Bretar hafa ekki ákveðið hvenær sendiráð þeirra verður opnað aftur, en það gæti orðið strax í dag.

Á árinu 2008 voru tvisvar gerðar árásir á sendiráð Bandaríkjanna í höfuðborginni Sana. Bandaríkjamönnum er einnig í fersku minni árás á bandaríska herskipið USS Cole í Jemen árið 2000.

Osama bin Laden, leiðtogi Al Kaída, er ættaður frá Jemen. Samtökin virðast hafa verið að færa sig upp á skaftið undanfarið, þótt margt hafi verið óljóst um skipulag þeirra og starfsemi árum saman.

Í Jemen hafa samtökin komið sér upp bækistöðvum. Landið er fátækt og fjöllótt og stjórnvöld hafa lítið eftirlit utan höfuðborgarinnar.

Fyrir ári tilkynntu samtökin um stofnun nýrrar deildar á Arabíuskaga, sem skipuð er meðlimum þeirra frá Jemen og Sádi-Arabíu. Leiðtogi þeirrar deildar er Naser Abdel Karim al-Wahishi, Jemenbúi sem áður var nákominn Osama bin Laden.

Tveir Sádi-Arabar eru einnig háttsettir í Jemendeild Al Kaída, þeir Sahid al-Shihri og Ibrahim Suleiman al-Rubaish, en báðir voru þeir í haldi Bandaríkjahers í Guantanamo-búðunum á Kúbu þangað til þeir voru látnir lausir, annar árið 2006 en hinn 2007.

gudsteinn@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×