Innlent

Varar við manni sem sníkir bensín út úr fólki

Marteinn kveðst hafa fyrst hitt manninn fyrir utan Smáralind fyrir tveimur mánuðum.
Marteinn kveðst hafa fyrst hitt manninn fyrir utan Smáralind fyrir tveimur mánuðum.
Marteinn Hilmarsson, faðir í Reykjavík, varar við óprúttnum aðila sem reynir að sníkja bensín út úr fólki. Hann segist fyrst hafa hitt manninn fyrir um það bil tveimur mánuðum síðan.

„Ég var í Smáralindinni fyrir tveimur mánuðum síðan og hitti á þennan mann. Hann var hágrátandi og ég vorkenndi honum svo. Hann sagðist ekki komast heim til sín á Akranesi því konan hans var veik, hvort hann sagðist hafa gleymt veskinu eða eitthvað álíka, en honum vantaði sárlega pening til að geta keypt fimm lítra af bensíni," segir Marteinn. Hann sagðist ekki hafa getað gert neitt annað en hjálpað honum þar sem hann virtist eiga svo bágt.

Nú í morgun hittir Marteinn sama mann fyrir utan BSÍ í Reykjavík. „Þar hélt hann á bangsa og sagði að litla stelpan sín hefði slasað sig og hann vantaði pening til að geta keypt fimm lítra af bensíni því hann þyrfti að komast til Njarðvíkur," segir Marteinn. Maðurinn labbaði upp að fólki sem var á BSÍ og hafi fólk hjálpað honum og keypt handa honum bensín.

Marteinn vill vekja athygli á manninum og finnst svona lygi svívirðileg. „Ég var svo ánægður með mig um daginn að hafa gert góðverk, en svo hitti ég hann núna og mér bara búið að líða illa síðan." Hann segir manninn vera um þrítugt og af erlendu bergi brotinn.

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu kannaðist ekki við tiltekið mál en sagði að vissulega hafi sambærileg mál komið inn á borð lögreglunnar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×