Viðskipti innlent

Bræðurnir eru að missa tökin

Lýður og Ágúst Guðmundssynir geta líklega eignast Bakkavör að einhverju leyti þegar þeir hafa greitt skuldir eftir nokkur ár.Fréttablaðið/GVA
Lýður og Ágúst Guðmundssynir geta líklega eignast Bakkavör að einhverju leyti þegar þeir hafa greitt skuldir eftir nokkur ár.Fréttablaðið/GVA

Líklegt er að bræðurnir Ágúst og Lýður Guðmundssynir, kenndir við Bakkavör, missi hlut sinn í Existu á næstu dögum en nauðasamningar félagsins verða lagðir fram í næsta mánuði. Þeir kveða á um yfirtöku kröfuhafa á Existu og brottrekstri forstjóra félagsins.

Líklegt er að Exista verði leyst upp í núverandi mynd auk þess sem eignarhlutur bræðranna í Bakkavör verði tekinn af þeim. Þeir muni eftir sem áður stýra félaginu með það fyrir augum að tryggja heimtur kröfuhafa. Slíkt þykir beggja hagur enda kann svo að fara að bræðurnir eignist hlut í Bakkavör á nýjan leik eftir nokkur ár að lokinni greiðslu skulda.

Exista var stærsti hluthafi Kaupþings áður en bankinn fór í þrot og átti stóra hluti í norrænu fjármála- og tryggingafyrirtækjunum Sampo í Finnlandi og Storebrand í Noregi. Viðskiptablaðið segir í gær að semja þurfi við lánardrottna Bakkavarar áður en til endurskipulagningar Existu kemur en sömu kröfuhafar eru á bak við bæði félögin. Þá þurfa niðurstöður að liggja fyrir um gjaldmiðlaskiptasamninga Existu við skilanefndir Glitnis og Kaupþings.

Fréttablaðið hefur heimildir fyrir því að Exista verði á meðal stærstu kröfuhafa í bú Kaupþings. - jab










Fleiri fréttir

Sjá meira


×